145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

um fundarstjórn.

[17:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Á undanförnum dögum hafa þingstörfin gengið svo sem ágætlega. Ég hef fullan skilning á því, ekki síst í ljósi þess að við förum brátt að ganga til kosninga, að kallað sé eftir því að við fáum sameiginlega sýn á það hvernig þinginu muni ljúka. Þær samræður munu hins vegar ekki verða kláraðar hér í þingsal heldur þurfa forustumenn flokkanna ásamt þingflokksformönnum að meta stöðuna frá degi til dags eftir því hvernig mál koma út úr nefndum. Ég veit ekki annað en að forsætisráðherra hafi verið í sambandi við forustumenn flokkanna síðast í gær og eftir atvikum í dag til þess að þreifa á því hvort sameiginleg sýn sé á hvernig við munum binda um þau mál sem hafa verið hér á dagskrá. Við höfum lengi beðið eftir því að ljúka 1. umr. um það mál sem var að ljúka rétt í þessu og næsta máli á dagskrá.