145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

um fundarstjórn.

[17:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp vegna orða hæstv. fjármálaráðherra sem segir að þingstörfin hafi nú í sjálfu sér gengið vel og svo munum við meta framvinduna frá degi til dags eftir því sem mál koma frá nefndum.

Herra forseti. Við munum ekki afgreiða nein mál út úr nefndum á meðan hæstv. ríkisstjórn treystir sér ekki til að tala við okkur eins og menn. Þannig er það bara. Fyrir utan það að í velferðarnefnd eigum við erfitt með að funda því að mjög margir nefndarmenn eru að fara á fundi hjá stórum hagsmunasamtökum sem vilja heyra í stjórnmálaflokkunum fyrir kosningar. Við þingmenn í minni hlutanum munum ekki funda í nefndum á þingfundatíma. Þegar ég bauð samnefndarmönnum mínum að funda eftir þingfund treystu þeir sér ekki til þess vegna skuldbindinga á kosningafundum. Það á við þingmenn úr öllum flokkum. Það er sú staða sem hér er uppi. Ég læt ekki bjóða mér að hæstv. forustumaður Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) tali til okkar með þessum hætti.