145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

um fundarstjórn.

[17:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er gamalkunnug staða í þinginu og það vita allir sem taka þátt í þessari umræðu að hún verður ekki leyst í þessum ræðustól eða undir þessum dagskrárlið. Menn segja að eitt og annað sé ekki boðlegt. Það sem mér finnst ekki boðlegt fólkinu í þessu landi er að þingstörfin gangi fyrir sig með þeim hætti sem orðinn er áralöng venja fyrir, að minni hlutinn í þinginu taki mál í gíslingu sem eru fullrædd til þess að (SII: Hvaða mál?) þvinga fram fundi (SII: Hvaða mál eru það?) um það hvaða mál minni hlutinn fær að stoppa. Það er það sem er að gerast. Þess vegna verðum við að taka þingsköpin til gagngerrar endurskoðunar (Gripið fram í.) og hætt að misbjóða landsmönnum með framgangi þingstarfanna hér á Alþingi. Það er vandamálið. (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega þetta sem nýkjörinn forseti Íslands gerði að umtalsefni í kosningabaráttu sinni og ég tek heils hugar (Gripið fram í: Hvað með samningaleiðir?) undir. Þessi frammíköll (Forseti hringir.) og þessi viðbrögð stjórnarandstæðinga við þessum (Forseti hringir.) augljósu staðreyndum segja (Forseti hringir.) allt sem segja þarf.