145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

um fundarstjórn.

[17:59]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég er nú ekkert sérstaklega hrifin af málflutningi hæstv. fjármálaráðherra. Stjórnarandstaðan hefur verið einstaklega samvinnufús. Við höfum lagt okkur í líma við að reyna að ná einhverjum málamiðlunum. Við erum búin að vera að biðja um forgangsmál þessarar ríkisstjórnar, þessi mikilvægu mál sem hún ætlaði að klára, sem hún tilkynnti í tröppunum í Alþingishúsinu á apríldegi einum nú í vor að þyrfti að klára. Á föstudaginn var t.d. fundi slitið um þrjú-, fjögurleytið. Þar var mjög umdeilt mál á dagskrá, raflínur á iðnaðarsvæði á Bakka, sem er mál sem við hefðum getað þæft fram í rauða dauðann ef við hefðum haft áhuga á því. Nei, virðulegi forseti. Það sem við höfum áhuga á er að fá að vita hvenær þessu slúttar því að þetta er farið að líkjast einhverjum kafkaískum gamanleik þar sem maður veit ekki hvað snýr upp og hvað snýr niður. Virðulegur fjármálaráðherra þarf að fara að skilja að við viljum dagskrá, við viljum forgangsmál, (Forseti hringir.) við viljum fá að skilja það hvenær þessu lýkur. Það er skiljanleg krafa, það er ekki bara (Forseti hringir.) heimtufrekja af minnihlutanum að biðja um það.