145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[18:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Það er líka annað sem mér þótti áhugavert að væri hér inni í allri vinnunni varðandi nýju fjárreiðulögin en þá gerðu ráðuneytin ráð fyrir að þau þyrftu aukið fjármagn. Við vorum nú búin að tala á okkur gat vegna fjármálaráðsins en það er samt sem áður gert ráð fyrir því hér inni. Það hefði auðvitað átt að vera til staðar líka.

Burt séð frá því þá langar mig til að spyrja um liðinn um Umhverfisstofnun. Þar er vitnað í lög um stjórn vatnamála og innleiðingu vatnatilskipunarinnar og talað um að gjaldtaka á atvinnurekstur sem nýtir vatnsauðlindina hefði átt að standa undir stærstum hluta af framkvæmd vatnatilskipunarinnar og gjaldtakan átti að hefjast árið 2013. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort skoðun hans sé sú að þetta gjald verði ekki lagt á atvinnugreinarnar sem þetta snertir og fjármagnið eigi fyrst og fremst að koma úr ríkissjóði.