145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[18:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið til umræðu einhvern tímann í mjög vondri ræðu undir liðnum um störf þingsins athugasemd vegna kostnaðarins sem fellur til í lögum vegna hælisleitenda, m.a. vegna uppihalds og slíks. Ég hjó eftir því hjá hæstv. ráðherra að hann talaði um að kostnaðurinn fælist líka í landamæravörslunni. Ég hef sjálfur haft orð á því að menn gera oft ráð fyrir því í verri hlutanum á þeirri umræðu að það kosti ægilega peninga að hleypa fólki inn í landið, en hins vegar sé ókeypis að henda því út úr landi eða láta það bíða eftir niðurstöðu eða eitthvað því um líkt. Þess vegna þætti mér vænt um ef hæstv. ráðherra gæti farið nánar út í það í hverju kostnaður felst. Við vitum náttúrlega að þetta er vegna hælisleitenda sem þýðir að þetta er kostnaður sem fellur til áður en fólk er samþykkt, þ.e. ef umsagnirnar eru samþykktar. Þetta er kostnaður sem fellur til vegna þess að við höldum fólki frá landinu, vegna þess að við erum með mikið bákn til þess í raun og veru að kveða upp úr um það hvort við viljum hleypa fólki inn í landið.

Ég veit að þetta er kannski inni á málasviði sem hæstv. ráðherra fjallar ekki um dagsdaglega, en mér þykir mikilvægt að þetta sé á hreinu. Við sem viljum mannúðlegri útlendingalög og almennt meira ferðafrelsi erum oft sökuð um að vilja ekki tala um þennan kostnað, vilja ekki tala um þennan þátt málsins. Mér finnst mikilvægt að við sýnum það í verki að við erum fullkomlega reiðubúin til þess, en horfumst þá líka í augu við það að kostnaðurinn fellur til vegna báknsins sem við höfum sjálf skapað. Mér þætti vænt um allt sem hæstv. ráðherra getur frætt mig um í þessu sambandi og sér í lagi ef hann getur staðfest skilning minn á því hvers vegna þessi kostnaður fellur til.