145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[18:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er auðvitað mjög umfangsmikill málaflokkur sem er verið að spyrja út í. Ég lít hann með þessum hætti: Við höfum haft mjög mikinn kostnað af því á undanförnum árum að það hefur tekið langan tíma að meðhöndla beiðnir í stjórnkerfinu hjá okkur. Í millitíðinni hafa viðkomandi hælisleitendur búið við mjög óskemmtilegar aðstæður en kostnaðurinn af því hefur verið borinn af ríkinu. Mín skoðun er sú að það er góð fjárfesting að setja meiri peninga í þennan málaflokk og þá sérstaklega í stjórnsýsluna til þess að við getum hraðað meðferð þessara mála. Mér finnst það vera mannréttindamál að við veitum þeim sem eiga rétt á því samkvæmt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum okkar svör eins fljótt og auðið er með því að manna stjórnsýsluna almennilega, úrskurðar- og kærunefndir og allt það sem þarf til, veitum þeim eins hratt og hægt er svar, bæði vegna þess að það mun sparar peninga að setja fjármuni í stjórnsýsluna til að greiða úr þessum umsóknum og vegna þess að það er mannúðlegri meðferð á stöðu þessa fólks. Hjálpum því síðan í framhaldi til þess að aðlagast íslensku samfélagi.

Alveg á sama hátt er það miklu mannúðlegri meðferð þessara mála að svara eins fljótt og auðið er þeim sem ekki fá inngöngu inn í landið. Það er alveg hræðileg meðferð í raun og veru á fólki, á lífi og tíma fólks, að halda því í óvissu um langa hríð vegna þess að við erum ekki að fjármagna stjórnsýsluna og enda síðan kannski eins og hálfs árs eða tveggja ára meðferð málsins með því að veita afsvar. Það er mannúðlegt og það er góð fjárfesting að setja fjármuni í (Forseti hringir.) að styrkja stjórnsýsluna og meðferð þessara mála.