145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[18:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Já, hérna eru tilteknir tveir liðir sem má alveg ræða í þessu samhengi. Varðandi fyrrverandi forseta Íslands liggur fyrir að það er mjög langt síðan við höfðum síðast forsetaskipti og mál höfðu þróast með þeim hætti að stjórnkerfið kostaði ekki aðstoð við þann fyrrverandi forseta. Nú við forsetaskiptin kemur fram ósk um þetta. Ég held að það sé dálítið langt gengið að segja að þingið hefði átt að átta sig á þessu, en þá er alveg sjónarmið sem hv. þingmaður kemur með að þetta séu ekki þær fjárhæðir að utanríkisráðuneytið hefði mögulega mátt leysa úr því. Við leggjum þetta fyrir þingið hér eftir samtal við utanríkisráðuneytið sem kveðst ekki hafa svigrúm til þess að ljúka málinu á þessu ári, en að sjálfsögðu verður þetta komið inn í fjárlög næsta árs.

Varðandi uppfærslu á tölvubúnaði og gerð heimasíðu fyrir forsetaembættið má segja að við séum að sýna ákveðinn sveigjanleika gagnvart nýkjörnum forseta og forsetaskrifstofunni með því að taka inn í fjáraukann að þessu sinni þessa heimasíðugerð. En ég verð að halda því til haga varðandi forsetaembættið almennt að það er ekki mjög fyrirferðarmikið eða fjárfrekt og ekki mannaflafrekt heldur í samanburði við margt það sem við mönnum annars staðar í stjórnkerfinu. Ef maður horfir til þess í því samhengi finnst mér þetta ekki vera stórmál, en sannarlega þolir það alveg umræðu hvort þetta standist lög um fjárreiður ríkisins. Þetta vildi ég helst hafa sagt hér.