145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[18:42]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þessa umræðu en ekki að lengja hana óskaplega.

Ég er ekki alveg sammála því sem kom fram að hér gætu flestir liðir fallið undir það að vera ófyrirséðir. Það er líka tekið fram að þetta er ekki fullburða fjáraukalagafrumvarp.

Eins og ráðherra kom inn á, og kemur fram í þessu, þarf væntanlega að bregðast við aftur þegar ný ríkisstjórn hefur komið saman og lagt verður fram nýtt fjárlagafrumvarp og staðan tekin aftur. Það kemur t.d. fram á bls. 19, vert að vekja athygli á því og eins þegar ráðherra fór ágætlega yfir tölulegar upplýsingar hérna, að reksturinn er frekar viðkvæmur og að hallinn á heildarjöfnuði verði í kringum 53 milljarðar sem er töluvert lakari en gert var ráð fyrir. Það er auðvitað gerð grein fyrir því hvers vegna, að stærstu leyti, og það er vegna þessara lífeyrisútgjalda sem hér er verið að leggja til, en líka vegna þess að svo mikið er af óreglulegum tekjum, stöðugleikaframlög o.s.frv.

Eitt af því sem er líka fjallað um á bls. 19 er um arðgreiðslur frá viðskiptabönkunum, sem eru hærri en gert var ráð fyrir. Við höfum gjarnan haldið því á lofti og fundist skrýtið hvers vegna það er ekki fært reglubundið.

Svo kemur hér fram, af því að ráðherra fór lítið í breytingar á lánsfjármagni, að ætlunin hafi verið að nýta stöðugleikaframlögin til að ráðstafa inn á bréf Seðlabankans sem er bara búið að greiða niður um 25 milljarða, en það stendur í 65 milljörðum, og óvíst hvort það verði greitt upp eða ekki. Það næst m.a. af endurheimtum á innlausn stöðugleikaeigna. Það er eitt af því sem ég hef sagt og sagði þegar ríkisfjármálaáætlunin var lögð fram, það er þetta með stöðugleikaeignirnar og heimturnar á þeim. Það er undirliggjandi í þeirri áætlun, hún byggist fyrst og fremst á því og við vitum ekkert hvernig það fer. Það er því partur af því og kemur hérna fram að á algjörlega eftir að koma í ljós hvort það verður. Gert er ráð fyrir að reynt verði að nýta 30 milljarða af stöðugleikaframlagi til að greiða niður skuldir það sem eftir er árs, en ekkert er í hendi.

Mig langar aðeins að fara yfir nokkra liði. Ég spurði út í rannsóknarnefndir þingsins og hefði verið áhugavert að vita meira um þær.

Ég er ánægð með að sjá að loksins er búið að taka ákvörðun um að flytja ríkislögmann. Farið er fram á 10 millj. kr. þar til embættisins til að vinna að málsvari fyrir hönd íslenska ríkisins gagnvart Mannréttindadómstóli Evrópu, þ.e. þetta er mál sem unnin eru gagnvart dómstólnum sem hafa verið unnin í innanríkisráðuneytinu en verið að flytja til ríkislögmanns. Ég held að það sé af hinu góða.

Hér er líka Lögregluskóli ríkisins. Kostnaðurinn við að flytja Lögregluskólann og leggja hann niður hér er upp á tæplega 44 milljónir. En vegna þeirra breytinga, þ.e. flytja hann upp á háskólastig, er verið að koma fyrir mennta- og starfsþróunarsetri sem verður staðsett á höfuðborgarsvæðinu hjá lögreglunni. Ég held að þetta hafi verið góð aðgerð í sjálfu sér að framkvæma fyrst málin voru svona komin, þó að deila hefði mátt um tímasetninguna. Það er náttúrlega alveg ljóst að þetta var allt of seint á ferðinni í sjálfu sér þó að vel hafi ræst síðan úr þessu.

Síðan eru nokkur mál innan menntakerfisins, öll góð og gild. Ég ætla ekki að draga úr því. Til dæmis á veita tímabundið 50 millj. kr. framlag til verkefnis á sviði máltækni fyrir íslenska tungu. Það er afar gott verkefni. Þetta er nýtt verkefni. En það er eitt af því sem fjáraukalögin segja að eigi ekki að gera, þ.e. að fara í ný verkefni.

Um haf- og vatnarannsóknir, tæki og búnað í skip. Lagt er til að 146 milljónum verði úthlutað til að fjármagna stofnkostnað vegna kortlagningar hafsbotnsins umhverfis Ísland. Það er nefnt sem rökstuðningur að þetta sé í tilefni af 50 ára afmæli Hafrannsóknastofnunar, sem var reyndar á síðasta ári, þannig að þetta hefði getað komið inn í fjárlögin en ekki í fjáraukalögin. Talað er um að verkefnið muni hefjast í ársbyrjun 2017 og standa yfir í 13 ár og verði með 200 millj. kr. framlag á hverju ári, sem sagt 2,6 milljarðar. Búið er að gera ráð fyrir þessu í fjármálaáætluninni, en ekki var gert ráð fyrir þessu í fjárlögum þessa árs. Þetta er svona eitt af því sem hefði getað komið inn í fjárlög að mínu mati.

Sama er að segja um niðurgreiðslur á húshitun varðandi Vestmannaeyjar. Þetta eru í rauninni ekki ný sannindi, þetta er hins vegar bara ákvörðun sem er tekin seint og er svona svolítið að manni finnst pólitískt útspil.

Svo er það ríkislögreglustjóri sem fær fjármunina sem ég nefndi áðan varðandi rekstur mennta- og starfsþróunarseturs. Ég hef áhyggjur af því sem kemur ekki hér fram en á örugglega eftir að koma í þeim fjáraukalögum sem þurfa að koma fram aftur. Hér er verið að veita peninga, 83 milljónir til ríkislögreglustjóra, m.a. 20 milljónir vegna öryggis- og löggæslu íslenskra lögreglumanna á Evrópumótinu í knattspyrnu í sumar, sem er góðra gjalda vert og allt í lagi með það. En það koma engir nýir peningar sem neinu nemur inn í lögregluna sem er langt, langt undir mörkum og þarf miklu meira fjármagn. Hér er í rauninni verið að bregðast við því sem gerðist í sumar.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson spurði áðan um kostnaðinn við flutninga hælisleitenda úr landi. Hér er lögð til 20 millj. kr. hækkun á framlagi til að standa undir kostnaði við ráðningu starfsmanna við að sinna greiningu, birtingu og fylgd úr landi. Ég held að það sé partur af þessu, en væntanlega líka eitthvað varðandi sakamál.

Hér eru framlög til lögreglustjóranna á Norðurlandi eystra og Suðurlandi. Það eru 22 milljónir til Norðurlands eystra og er fyrst og fremst til að fjármagna hálendisgæsluna og sama í rauninni er með lögreglustjórann á Suðurlandi, þar eru 76 milljónir vegna aukins ferðamannastraums. En ég þykist vita að þetta verði varla til þess að endar náist saman því að allar stofnanir sem hafa samband við okkur kvarta um að launabætur séu ekki greiddar að fullu. Það er bara alveg sama hvort það er menntastofnun, löggæslan eða sýslumenn. Sýslumenn eru að reyna að leysa málin, en þeir fengu hins vegar við sameininguna yfirfærðar og dreifðar á embættin skuldir í staðinn fyrir að byrja á núllpunkti með nýjar stofnanir. Nánast allar stofnanir sem hafa samband segja að einhverra hluta vegna fjármagni ríkið ekki að fullu samninga sem það gerir, þ.e. launabætur. Það er auðvitað algjörlega óásættanlegt. Þessir tveir liðir hjá lögreglustjórunum eru fyrst og fremst vegna þess að ákveðið var að auka eftirlit á hálendinu. Það er ekki verið að bæta í eitt eða neitt, heldur er þetta partur af því sem ríkisstjórnin ákvað að gera.

Varðandi hælisleitendur tek ég undir með hæstv. ráðherra, það er gott að hér skuli vera lögð til hækkun til að standa straum af þeim lið og til að flýta málsmeðferð. Það er afar mikilvægt og tek undir það. Til framtíðar litið er það auðvitað til þess að fólk þurfi ekki að bíða lengi eftir því að fá niðurstöðu í sín mál. Það er grundvallaratriði og var eitt af því sem allsherjar- og menntamálanefnd komst að niðurstöðu um og lagði til við afgreiðslu útlendingafrumvarpsins svokallaða.

Það er líka ánægjulegt að sjá að Rauði krossinn á að fá hækkun á framlagi vegna talsmanna þjónustu sinnar, 40 millj. kr., til að standa undir þeim kostnaði þar sem umsóknum hefur fjölgað. Það er afar gott því að þar er mjög mikilvægt starf unnið.

Síðan er Vegagerðin. Þar er verið að taka af einmitt þessum ófyrirséðu útgjöldum vegna hamfara þar sem þau eru fyrst og fremst ætluð til að mæta þeim. Það er m.a. vegna Skaftárhlaups og vatnavaxta sem urðu á Austurlandi. Miklar skemmdir urðu á vegum í Borgarfirði eystra og Fljótsdalshéraði og svo suður á fjörðunum eins og margir þekkja. Áætlað mat á heildarkostnaði við viðgerðir á þjóðvegum er um 143 millj. kr. Ég vona svo sannarlega að það dugi til, þó að ég hafi af því áhyggjur að svo verði ekki.

Svo er lögð til 80 millj. kr. hækkun á framlagi til ýmissa aðgerða og endurbóta á vegakerfinu sem byggja á tillögum stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála um aðgerðir til að auka öryggi ferðamanna að fjölförnum ferðamannastöðum. Ég veit svo sem ekkert hvaða staðir þetta eru nánar sem um ræðir, það kemur væntanlega fram í umfjöllun okkar í nefndinni um málið. En þetta er líka eitt af því sem ekki er beinlínis ófyrirséð, það hefur náttúrlega legið fyrir lengi að innviðirnir og vegakerfið okkar er mjög illa farið.

Úr Hafnabótasjóði á að greiða tjón sem varð á hafnarsvæðum, grjótgörðum og grjótvörnum í Breiðdalsvík og Borgarfirði eystra eftir það óveður sem ég nefndi áðan og reyndar við Hornafjörð líka og er það vel.

Varðandi sjúkratryggingarnar er lögð til hækkun sem ég vona að dugi til, þó að ég hafi áhyggjur af því að það gæti átt eftir að breytast. Þetta eru miklar fjárhæðir sem um ræðir, rúmlega 500 milljónir, en við viljum vissulega vera fremst meðal þjóða í því að reyna að innleiða ný lyf. Við þekkjum umræðuna um að ekki hafi verið gert mikið af því, innleiðingin hefur verið í algjöru lágmarki í langan tíma.

Svo að lokum, virðulegi forseti, ég er ánægð með að sjá framlög til hjúkrunarheimila. Það er stór fjárhæð, 1,5 milljarðar, sem á að veita til reksturs hjúkrunarheimila. Það er þessi rammasamningur sem er verið að gera. Þá verða þau hjúkrunarheimili jafnsett hinum, sem búið var að koma til móts við og eru í eigu sveitarfélaga, sem er verið að mæta núna.

Ég er líka ánægð með að embætti ríkisskattstjóra og yfirskattanefnd fái aukafjárveitingar til að fara í aukið skatteftirlit, því að við höfum rætt það mikið hér að umfang undanskota frá sköttum gæti verið um 80 milljarðar og það þarf auðvitað setja fjármuni í það til að ná í þá og það er af hinu góða.

Allra síðast langar mig að segja varðandi það sem ég nefndi áðan og ráðherra svaraði kannski lítið. Jú, það er eitt hér á undan, það er Mývatn. Við ræddum málefni Mývatns og lítilla sveitarfélaga sem hafa íþyngjandi fráveitumál eins og þar er um að ræða. Hér á að leggja til fjármagn, þó að það sé ekki nema 3 milljónir, til að mæta kostnaði við úttekt á fráveitumálum þar sem á að skoða möguleika á kostum sem hægt er að sjá fyrir sér að geti orðið til úrbóta. Það er til alls fyrst, ákveðin viðurkenning á því að þetta er verkefni sem sveitarfélagið eitt og sér getur ekki staðið undir.

Svo í restina þá er það það sem ég spurði hæstv. ráðherra um varðandi gjaldtöku á atvinnurekstur sem nýtir vatnsauðlindina. Þetta er ferskvatnsnýting í atvinnuskyni sem ríkisstjórninni hefur ekki tekist að afgreiða. Umhverfisnefnd var með þetta á sinni könnu, var tilbúin að afgreiða málið, en ég held að það hafi strandað á Sjálfstæðisflokknum þar sem hann var ekki tilbúinn að leggja gjöld á atvinnureksturinn, að mér skilst. En þetta er eitthvað sem við þurfum að gera. Ég get eiginlega ekki verið sammála því að við getum ekki fundið einhvers konar millileið til að ríkið og þau fyrirtæki sem um ræðir deili þessum kostnaði með sér, um er að ræða 110 milljónir.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta þetta duga um málið að sinni.