145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[20:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2016. Eins og gefur að skilja ætla ég helst að tala um þau atriði sem lúta að velferðarmálum. Það er kannski fljótgert því að það eru þrjú tilefni til fjáraukalaga sem lúta að velferðarráðuneyti. Þar eru annars vegar lyf með S-merkingu, en eins og fram hefur komið er alvarlegur fjárskortur til þess að taka inn ný S-merkt lyf og þá einna helst vegna gigtarsjúkdóma og krabbameinslækninga. Ég fagna því að hér séu að koma 427 millj. kr. til hækkunar á framlagi til liðarins S-merkt lyf, en áður hafði 100 millj. kr. verið veitt af safnlið ráðuneytisins. Það eru um 527 millj. kr. sem eru að koma umfram fjárlög inn í þetta, og reyndar má segja að það hafi verið fyrirséð því að í fjárlögunum er bara gert ráð fyrir 3% raunvexti eins og svo mörg ár áður og alltaf er bent á að þetta séu óraunhæf framlög, en svo koma þau í fjáraukalögum. Þetta er nú ekki gott verklag, en því ber sannarlega að fagna að hér sé verið að gera mögulegt að innleiða ný lyf sem skipta sköpum fyrir heilsu fólks, og flest þeirra hafa þann eiginleika að bæta mjög lífsgæði og þátttöku fólks í samfélaginu.

Þá er einnig liður hér sem lýtur að samningum sem náðst hafa við hjúkrunarheimili. Lögð er til 1.500 millj. kr. viðbótarfjárveiting til reksturs hjúkrunarheimila á árinu. Sjúkratryggingum var gefin heimild til þess að ganga til samninga við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga. Til þess að ná því samkomulagi um gerð rammasamnings sem byggir á kröfulýsingu fyrir öldrunarþjónustuna þurfti að leggja til viðbótarfjármagn. Það kemur fram í greinargerð að fyrir liggi drög að slíkum samningi og að aðilar séu sammála um að ljúka gerð endanlegs samnings fyrir 1. október á þessu ári.

Þá er hér verið að leggja til 64,5 millj. kr. til Barnaverndarstofu út af heimili fyrir börn og unglinga. Þar er um að ræða eitt barn sem á við alvarlegan vanda að stríða. Mér finnst óþarflega miklar skýringar á þessum lið. Það jaðrar við persónuvernd, því að þarna er verið að fjalla um einn einstakling. Mér finnst þurfa að hafa það í huga þegar svo háttar til að það sé passað upp á slíkt í greinargerðum.

Ég tek sem dæmi í samanburði ýmis verkefni á sviði fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar er óskað eftir 27 millj. kr. fjárheimild vegna samnings við Lundúnaskrifstofu alþjóðlega almannatengslafyrirtækisins Burson-Marsteller. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að ganga til samstarfs við fyrirtækið sem tæki til ráðgjafar og þjónustu á sviði efnahagsmála, sjávarútvegsmála og annarra málasviða á alþjóðlegum vettvangi sem til skrifstofunnar væri leitað með. Það er reiknað með samstarfi frá júní 2016 til ársloka. Þarna er eitthvert sjö mánaða tímabil þar sem við erum að nýta okkur, íslenska ríkið, breskt almannatengslafyrirtæki. Það er mjög óljóst í hvers konar verkefni þetta á að fara og af hverju þetta eru eingöngu sjö mánuðir. Eru þetta einhver ákveðin verkefni? Þarna hefði til dæmis alveg verið hættulaust að gefa okkur betri upplýsingar enda engar persónur sem þarna er verið að fjalla um.

Svo er hér einn liður sem er nú afskaplega lág fjárhæð, það 3 millj. kr. framlag vegna þjónustu við fyrrverandi forseta Íslands sem lét af störfum þann 1. ágúst síðastliðinn. Forsetinn fyrrverandi er að fá aðstoðarmann í 50% starfshlutfalli og það er starfsmaður utanríkisráðuneytisins sem mun veita þessa aðstoð og þjónustu vegna ýmissa verkefna. Það er gert ráð fyrir að þetta verði 3 milljónir í ár og 7 milljónir kr. árið 2017, ákvörðun um aðstoð og þjónustu skal koma til endurmats eigi síðar en að tveimur árum liðnum. Hérna finnst mér þurfa dálítinn rökstuðning.

Nú er það svo, frú forseti, að ég tel algjörlega eðlilegt að fyrrverandi forseti lýðveldisins fái slíka aðstoð, ég get sagt það. Ég veit það til dæmis að árið 1996, þegar frú Vigdís Finnbogadóttir lét af embætti, þá fékk hún enga slíka aðstoð, en hún hefur allar götur síðan í 20 ár í raun verið í vinnu fyrir íslenska ríkið og farið víða um sem erindreki og hefur algjörlega séð um það sjálf. Það finnst mér ekkert til eftirbreytni. En mér finnst að ef við erum að veita slíkt fjárframlag þá séum við búin að skilgreina hvenær slík fjárframlög koma til greina og það sé einhver rammi utan um þetta. Ég veit að það eru mismunandi skoðanir á þessu meðal þingmanna, en mér finnst persónulega ekkert óeðlilegt við það að fyrrverandi forseti lýðveldisins hafi möguleika á aðstoð af einhverju tagi vegna verkefna sem tengjast því að viðkomandi var áður forseti lýðveldisins.

Við í Samfylkingunni, kratarnir, viljum hafa kerfi á hlutunum og mundum vilja að þarna væru einhverjar reglur smíðaðar sem almennt giltu og tekin væri ákvörðun um það að við vildum hafa það svona, en það væri ekki eingöngu í höndum ríkisstjórnar hverju sinni hvort hún byði upp á slíka aðstoð og þjónustu.

Ég get ekki látið hjá líða hér í umræðu um fjáraukalög að ræða stöðu heilsugæslunnar. Nú lesum við það í dag á forsíðu Fréttablaðsins að Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson, svæðisstjóri Heilsugæslunnar í Grafarvogi, lýsir yfir miklum áhyggjum af fjármögnun heilsugæslunnar og talar um að á hans stöð geti orðið allt að 60 millj. kr. niðurskurður. Þetta eru gríðarlegir fjármunir, frú forseti.

Þá vil ég vitna til þess að þegar við náðum samkomulagi í vor um breytingar á greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðiskerfinu og heimild til innleiðinga á þjónustustýringu þar sem á að byrja á þjónustustýringu vegna barna, sem á að tryggja þeim ódýrari heilbrigðisþjónustu, þá var forsenda þess að við í minni hlutanum tókum þátt í afgreiðslu þess máls sú að greiðsluþátttaka yrði ekki hærri en 50 þús. kr. á ári og það er auðvitað í fjárlögum næsta árs sem þeir fjármunir koma, en líka að þegar á þessu ári þyrfti að bæta 300–400 milljónum inn í heilsugæsluna. Því í umsögnum um málið var ítrekað lýst yfir áhyggjum af því hversu illa heilsugæslan væri í stakk búin fyrir þetta aukna verkefni. Það var líka rætt um það að heilsugæslan er að ganga í gegnum miklar breytingar og er að leggja aukna áherslu á teymisvinnu þar sem hjúkrunarfræðingar og aðrar sérfræðistéttir en læknar fái aukið vægi inni á heilsugæslunni. Það þyrfti að efla þetta til muna til þess að heilsugæslan gæti tekið við auknum verkefnum. Þetta var staðfest af hæstv. fjármálaráðherra sem lætur nú ekki svo lítið að vera viðstaddur 1. umr. um eigið frumvarp, frú forseti, og staðfest af hæstv. heilbrigðisráðherra.

En nú segir velferðarráðuneytið að þessar 300–400 milljónir sem við tölum um í nefndaráliti eigi að koma til að fjármagna nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar. Þessar nýju einkareknu heilsugæslustöðvar þýða bara að nokkrir læknar af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa stofnað einkafyrirtæki utan um rekstur heilsugæslustöðva, farið þar með út úr heilsugæslunni og þá væntanlega með einhverja sjúklinga með sér — ég fagna því að sjá hæstv. fjármálaráðherra hér — og með fjármuni með sér og svo á það að leysast einhvern veginn. Það er náttúrlega algjörlega óásættanlegt að stofnun nýrra heilsugæslustöðva verði á kostnað fjármögnunar núverandi heilsugæslustöðva. Við ætluðum núverandi heilsugæslustöðvum að fá aukið fjármagn.

Þegar við áttum í þessum samræðum við hæstv. heilbrigðisráðherra og ræddum þessi mál fram og aftur, af því að við vorum mjög áfram um að geta lokið þessu verkefni með honum, þá sagði hann okkur aldrei að þessar 300 til 400 milljónir ættu að fara í einkareknar heilsugæslustöðvar heldur töluðum við á þeim nótum að þetta færi inn í heilsugæsluna til þess að efla hana til að takast á við þessi verkefni. Það kennir okkur bara það að ráðherrar misnota sér traust þingmanna með hálfsannleik og það er mér mikið áfall. Það er mikið áfall gagnvart mínum þingflokki sem var tilbúinn til að fara út í þetta verkefni á þessum forsendum, en svo er það líka þannig að þetta eru fjáraukalög núverandi ríkisstjórnar og næsta ríkisstjórn getur komið með ný fjáraukalög.

En ég bara undirstrika það að ég tel að þeir fjármunir sem fara hér til velferðarmálanna séu allir sannarlega verðug verkefni og það hefði mátt koma meira til, en það er eðli fjáraukalaga að þau eru ákveðnum takmörkunum háð. Það er gott að fá aukna fjármuni inn í S-merktu lyfin og það er mikilvægt að ljúka samningum við hjúkrunarheimilin. En ég sakna þess mjög að heilsugæslan sé ekki að fá fjármuni, enda þarf hún mjög á þeim að halda, því að uppbygging heilsugæslunnar er lykillinn að því að efla íslenskt heilbrigðiskerfi.

Málið fer svo til fjárlaganefndar og ég veit að fulltrúi okkar þar, hv. þm. Oddný Harðardóttir, mun óska eftir nánari upplýsingum um fjárveitingar til heilsugæslunnar á yfirstandandi ári.