145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að vera á svipuðum nótum og síðasti ræðumaður og ræða um innanlandsflugið sem hefur verið töluvert uppi á yfirborðinu undanfarið og mikið um það rætt síðustu daga. Ég hef haft efasemdir um fyrirætlanir núverandi stjórnvalda sem lögðu þó í það að stofna nefnd um þetta verkefni, þ.e. hvernig hægt væri að lækka gjöld í innanlandsflugi. Það er langt síðan þeirri vinnu var skilað en ekkert hefur gerst. Það kostar í kringum 200 milljónir ef gefinn er eftir virðisaukaskattur af eldsneyti í innanlandsflugi, lægri gjöld á flugvöll o.s.frv., og þá er hægt að lækka miðaverð, það skiptir máli, um 15–18%. Það munar um minna í fluginu innan lands eins og það er dýrt. Þetta snýst bæði um það að viðhalda byggð í landinu, hafa tækifæri til að sinna nýsköpun, sinna fjölskyldu o.s.frv. Það er ýmislegt sem er undir. Ef við viljum raunverulega hafa byggð í öllu landinu þarf flugið að vera valkostur. Það er alveg á hreinu.

Það er líka annað sem skiptir miklu máli þegar kemur að hinni dreifðu búsetu og það er ljósleiðaravæðingin sem átti að spila mjög stórt hlutverk. Það var líka skipuð nefnd og hún skilaði af sér en því miður virðist það ekki ætla að ganga eftir með þeim hætti sem lagt var af stað með, a.m.k. í ríkisstjórnarsáttmálanum. Það þarf að leggja áherslu á byggðasjónarmið og það þarf að setja aukna fjármuni í verkefnið og það þarf að hafa úthlutunarreglurnar eins og upphaflega var ætlað. Þær áttu ekki að vera með þeim hætti að sveitarfélögin væru að etja kappi hvert við annað (Forseti hringir.) eins og raunin er núna og þau sem standa hvað veikast að vígi sitja eftir.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna