störf þingsins.
Forseti. Mér finnst mikilvægt að benda þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á það að sú rannsókn sem var birt í læknatímaritinu The Lancet þar sem var gerður samanburður á ríkjum heimsins með tilliti til ýmissa heilbrigðisþátta, setur okkur ekki í fyrsta sæti yfir besta heilbrigðiskerfi í heimi, heldur er þetta lýðheilsurannsókn, svona í ljósi ummæla hv. tilvonandi þingmanna þar á bæ.
Mig langar að lesa hér upp ábendingar frá Kára Stefánssyni varðandi McKinsey-skýrsluna um Landspítalann, því að mér finnst mjög mikilvægt að við horfumst í augu við það að hér hefur ríkt ákveðið stefnuleysi. Með leyfi forseta, segir Kári:
„Skýrsluhöfundar leiða að því rök að það sé engin heildarstefna í heilbrigðismálum á Íslandi. Það sé til dæmis ekki ljóst hvað eigi að höndla á legudeildum Landspítalans, hvað á göngudeildum eða á einkastofum úti í bæ eða í heilsugæslunni eða öðrum sjúkrastofnunum. Það er engin samhæfing og einstakir þættir heilbrigðisþjónustunnar hafa þróast með eigin þarfir að leiðarljósi frekar en þarfir samfélagsins. Heilbrigðisstarfsmenn og þá sérstaklega læknar hafa leitað í þá hluta kerfisins sem gefa hvað mest í aðra hönd. Þess vegna hefur kostnaður við þjónustu sem er veitt á einkastofum úti í bæ aukist umtalsvert á þeim tíma sem skorið hefur verið niður annars staðar. Þessi kostnaðaraukning skýrist af aukinni starfsemi og nýjum samningum við Sjúkratryggingar sem kveða á um hærri endurgreiðslur fyrir veitta þjónustu.“
Hann lýkur þessum ábendingum sínum um stefnuleysið í 3. hluta greinar sinnar á því að segja:
„Staðreyndin er sú að einkastofupraxísinn hérlendis hefur vaxið að því marki að það eru ekki mörg lönd í Evrópu þar sem einkavæðing í heilbrigðisþjónustu er meiri en á Íslandi. Nú veit ég ekki hvort það er eitthvað sem þjóðin vildi.“
Mér finnst þetta mikið umhugsunarefni og ég skora á þingheim að finna leiðir þar sem við getum (Forseti hringir.) farið í langtímastefnumótun um svo mikilvæga málaflokka hér á þinginu sjálfu.