145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hafa orðið miklar umræður um heilbrigðismálin fyrir þessar kosningar og það er vel, vegna þess að fáir málaflokkar eru jafn mikilvægir og heilbrigðismál. Enginn getur haldið öðru fram en að sú ríkisstjórn sem nú situr hafi forgangsraðað í þágu heilbrigðismála. Nú tala allir um mikilvægi þess, en það hefur vantað upp á að menn væru tilbúnir að styðja ríkisstjórnina í að forgangsraða, því ef forgangsraða á í heilbrigðismál þá þýðir það að klípa þarf af annars staðar. Þar fara hljóð og mynd ekki saman hjá hv. stjórnarandstöðu.

Í morgun fengum við enn eina skýrsluna um heilbrigðismál. Við höfum fengið skýrslu frá McKinsey sem er mjög góð. Þar er bent á að því miður, þrátt fyrir aukninguna í heilbrigðismálin, hafi afköstin minnkað á Landspítalanum, sem er eitthvað sem við þurfum að skoða sérstaklega. Í morgun vorum við á fundi um skýrslu sem efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins hafði tekið saman um heilbrigðismál. Það er mjög greinargóð skýrsla sem ég hvet alla til að kynna sér. Þar kemur fram að við höfum aukið mikið í í heilbrigðismálum, en í ofanálag, sé leiðrétt fyrir aldurssamsetningu, eru framlög með því hæsta sem gerist innan OECD og það er nokkuð sem við þurfum að taka mið af.

Á sama hátt kemur í ljós að greiðsluþátttaka miðað við aðrar þjóðir OECD er mjög lág sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Við erum algjörlega á pari þar við Norðurlöndin, erum að vísu með lægri greiðsluþátttöku en í það minnsta tvö Norðurlandanna. Annað sem kemur líka fram, af því að menn tala um Norðurlöndin, er að við skerum okkur úr í samanburði við Norðurlöndin þegar kemur að heilsugæslunni. Hver er sérstaðan? Við erum nær eingöngu með ríkisrekið kerfi meðan Norðurlöndin eru meira og minna með hana (Forseti hringir.) í höndum einkaaðila. Ég held að það sé mikilvægt, virðulegi forseti, að við ræðum þessi mál út frá staðreyndum en ekki óskhyggju.


Efnisorð er vísa í ræðuna