145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hóf áhugaverða umræðu hér áðan sem m.a. varðar kosningaþátttöku og almennan áhuga á stjórnmálum og kosningum. Við höfum séð þá þróun víða í nágrannalöndunum að kjörsókn hefur minnkað á undanförnum árum og áratugum. Lengi vel var staðan sú hér á landi að við virtumst ekki vera á sömu leið og nágrannaþjóðirnar hvað þetta varðaði. Þannig hefur kjörsókn hér verið almennt mun meiri en gengur og gerist í flestum samanburðarlöndum þar sem ekki er skylda til að nýta sér atkvæðisréttinn eins og reyndar finnst í sumum löndum.

Það kann hins vegar að vera að ákveðin hættumerki séu á lofti. Niðurstaða í sveitarstjórnarkosningum 2014 sýndi töluvert minni kjörsókn en við höfum séð áður. Það var ólíkt því sem gerðist til dæmis í alþingiskosningum 2013 og reyndar 2009 þar sem kjörsókn var veruleg. En við sáum ákveðið fall í kjörsókninni í sveitarstjórnarkosningunum 2014. Það kann að vera merki um einhverja þróun sem við þurfum að bregðast við.

Í skemmri tímarammanum held ég að það sé hlutverk okkar stjórnmálamanna fyrst og fremst að hvetja fólk til að nýta sér kosningarréttinn, hvetja fólk til þátttöku. Til lengri tíma þurfum við vafalaust að velta fyrir okkur stærri breytingum. En ég er hins vegar ekki alveg viss um að fleiri kosningar eða aukin krafa um að þjóðin gangi að kjörborðinu um hin og þessi mál sé leiðin (Forseti hringir.) til þess að bregðast við þessu. Hættan er auðvitað sú að því oftar sem fólk er kallað að kjörborðinu, þeim mun áhugaminna verði það þegar til lengri tíma er litið.


Efnisorð er vísa í ræðuna