145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma upp og ræða aðeins það mál sem við erum með í þinginu sem kom óvænt inn frá hæstv. iðnaðarráðherra um raflínur til Bakka þar sem hæstv. ráðherra vill setja lög sem taka í burtu andmælarétt Landverndar og frysta í raun það ferli sem nú er í gangi, en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er að fara yfir kæru frá Landvernd um framkvæmdaleyfi í þessum atriðum.

Nú er það svo, og við höfum farið yfir það hér, að málið er brýnt út af fjárhagslegum hagsmunum og allt það, það er engin þörf á að ég fari yfir það allt saman aftur. En það er vægast sagt mjög gerræðislegt að grípa inn í lögbundna ferla sem ganga mjög vel til þess að setja á lög sem taka í burt andmælarétt félagasamtaka eins og Landverndar. Það er mjög mikið áhyggjuefni að verið sé að fara þá leið. Líka af því að nú hefur komið í ljós að við þurfum ekkert að bíða lengi eftir úrskurði nefndar um umhverfis- og auðlindamál. Áætlað er að sá úrskurður komi inn 10.–14. október. Þá hlýtur maður að spyrja sig hvort hæstv. ráðherra hafi veður af því hvernig sá úrskurður hljómar ef hún þorir ekki að bíða eftir honum. Atvinnuveganefnd ætlar að (Forseti hringir.) taka út málið í dag og passa að við bíðum ekki eftir þeim úrskurði.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna