145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

kostnaður við ívilnanir til stóriðju.

[11:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Gömlu samningarnir við stóriðjuna eru ekki til eftirbreytni. Nýlegt dæmi í umræðunni er fyrirtækið Alcoa sem samkvæmt fjárfestingarsamningi sínum verður alltaf undanþegið lögum um bann við svokallaðri eiginfjármögnun. Það þýðir bara eitt, arður fyrirtækisins er og verður fluttur úr landi og engir skattar greiddir af honum til íslensks samfélags. Slíka samninga, sem flytja arðinn af auðlindum okkar úr landi, má aldrei gera aftur. Þjóðir heims keppast nú um að laða til sína erlend fyrirtæki og þau nýta skattkerfin sín til þess.

Það þarf að varast þá þróun því að á meðan eru önnur fyrirtæki starfandi við hlið þeirra sem þurfa að greiða full gjöld og skatta og við, fólkið í landinu, verðum af mikilvægum tekjum sem nýta ætti í heilbrigðiskerfið eða skólana.

Undir stjórn hægri flokkanna hér áður voru gerðir tilfallandi sérsamningar við stóriðjufyrirtæki sem aðrir áttu ekki kost á hér á landi. Það var hins vegar undir forustu samfylkingarkonunnar og jafnaðarmannsins Katrínar Júlíusdóttur, þáverandi iðnaðarráðherra, að gerðar voru breytingar og almennar reglur um fjárfestingarsamninga tóku gildi.

Nú eiga öll fyrirtæki sem staðsett eru utan höfuðborgarsvæðisins óháð starfsemi og eignarhaldi rétt á sams konar ívilnandi fjárfestingarsamningum fyrir fjárfestingar yfir ákveðinni stærð. Almennar reglur gilda í stað geðþóttaákvarðana stjórnmálamanna sem teknar eru eftir því hvernig vindurinn blæs.

Við viljum fá erlendar fjárfestingar til Íslands og vonandi sjáum við fjölbreyttari starfsemi erlendra fyrirtækja í náinni framtíð sem skapar hér góð og vel launuð störf, en slíkar fjárfestingar eiga að vera í sátt við fólk og umhverfi og nýtast til þess að byggja öfluga velferð og atvinnulíf hér á landi.