145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

kostnaður við ívilnanir til stóriðju.

[11:21]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur þessa umræðu um stóriðju. Þegar við ræðum stóriðju verðum við að setja þessa hluti í einhvers konar tímasamhengi þjóðfélagsbreytinga, breytinga á atvinnuháttum og umhverfismálum, en þetta er starfsemi sem með afleiddum störfum og þjónustu henni tengdri skilar miklu í heildarverðmætasköpun landsins og er mikilvæg starfsemi í atvinnu- og byggðamálum. Við erum í samkeppni um að fá hingað til lands fjölþjóðlegar samsteypur á þessu sviði og þá er orkan dýrmætur samkeppnisþáttur, auk þess sem ívilnandi samningar stjórnvalda geta skipt sköpum.

Auðvitað er þetta og verður á kostnað umhverfis og náttúru að einhverju marki og kostnaður í formi fórnar á öðrum valmöguleikum til nýtingar og að sama skapi því jafnvægi sem við reynum og viljum hafa á vernd og nýtingu.

Þetta er orkukrefjandi búskapur og huga verður að fjármögnun orkuframleiðslunnar við virkjunarframkvæmdir og áhrif um leið á hagkerfið, hagstjórnina í þeirri viðleitni að hafa hér jafna aukningu verðmætasköpunar, hagvöxt sem byggir á framleiðnivexti og viðheldur þannig stöðugleika og stuðlar að raunverulegum og bættum lífskjörum.

Það er vissulega margt jákvætt sem stóriðja og slík starfsemi hefur skilað hér á liðnum árum, til að mynda lægra orkuverði til almennings. Við komum best út í samanburði Norðurlanda, og smásöluverð á raforku til íslenskra heimila þegar tekið er tillit til dreifingarkostnaðar og skattheimtu er mun lægra en í völdum samanburðarlöndum Evrópu.

Forsendur hagkvæmra virkjana eru ástæðan og arðbærar uppbyggingar á orkukerfum. Hún hefur verið hraðari og hagkvæmari en ella vegna stóriðju sem hefur þannig lagt grunninn að lægra verði fyrir almenna neytendur (Forseti hringir.) og aukinni hagsæld. Ég er sammála hv. framsögumanni og hæstv. ráðherra að fórnarhagsmunir eru í dag stærri með tilliti til ferðaþjónustu og loftslagsmála.