145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

kostnaður við ívilnanir til stóriðju.

[11:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum hlynnt almennum ívilnunum fyrir fyrirtæki í landinu, löggjöf um almenna ívilnun. En atvinnustefna þessara ríkisstjórnarflokka í gegnum tíðina hefur fyrst og fremst miðast að stóriðjuuppbyggingu. Það hefur verið stóra lausnin, gamaldags lausn sem núna er liðin. Við vinstri græn teljum að það eigi ekki að horfa til þess að fara út í virkjunarframkvæmdir til að afla stóriðju raforku. Í dag fer yfir 80% af raforkuframleiðslu landsmanna til stóriðju. Til dæmis á Suðurlandi, þar sem mest af orkuframleiðslunni fer fram, eru einungis rétt um 4% sem verða eftir á því svæði. Ég held að við eigum að fara að horfa miklu frekar til þess að stóriðja okkar Íslendinga felst í mannauði fólksins sem býr hér. Við eigum að horfa til atvinnuuppbyggingar í litlum og meðalstórum fyrirtækjum og tryggja raforkuöryggi allra landsmanna, að það sé t.d. hægt að útvega þriggja fasa rafmagn vítt og breitt um landið þar sem fólk er að setja af stað fyrirtæki. Við höfum margt hér heima sem við eigum að horfa til annað en stóriðju. Það hefur líka komið fram að stóriðjan skilur ekki einu sinni eftir nema hluta af hagnaði sínum hér innan lands. Það er auðvitað algerlega óásættanlegt og verður að koma í veg fyrir að menn fari með arðinn úr landi vegna þess að þunn eiginfjármögnun er hér til staðar. Við Íslendingar — það var hlegið að okkur vinstri grænum þegar við töluðum um að við vildum eitthvað annað en stóriðju, hvað það væri, væri það fjallagrasatínsla? En hvað er þetta eitthvað annað í dag? Er það ekki ferðaþjónustan sem er að verða einn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar? Þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) hefur ekkert gert til að mæta þeirri gífurlegu aukningu ferðamanna og innviðauppbyggingu sem henni fylgir.