145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

kostnaður við ívilnanir til stóriðju.

[11:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er ein af þeim umræðum sem ég mundi vilja hafa lengri, eins og reyndar fjölmargar sérstakar umræður ef út í það er farið. Ég get tekið undir ýmislegt sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði og fagna sérstaklega lokaorðunum. Þegar yfirvöld ákveða að beita einhvers konar ívilnunum, hvort sem það eru undanþágur frá lögum eða skattaívilnanir eða eitthvað því um líkt, eru þau með einhverjum hætti að stýra markaðnum. Það er ekki hægt að vera alfarið algerlega alltaf á móti því eða með því. Það er ekki það einfalt. Vissulega getur verið ærið tilefni til þess. Það hefur áhrif á aðra markaði líka. Þegar yfirvöld ákveða að rafmagn skuli fyrst og fremst notað til stóriðju af tiltekinni tegund hefur það líka áhrif á það hvaða möguleika aðrir aðilar hafa til að nota sama rafmagn til annars iðnaðar. Það felst í því stýring.

Sú stefna sem var hér lengi vel alla vega, burt séð frá því hvernig menn líta á þetta núna, var sú að nýta þetta í stóriðju. Núna er það ferðamannaiðnaðurinn sem blómstrar, sem ætti reyndar ekki að hafa komið neinum á óvart, sérstaklega ekki miðað við málflutning sumra stjórnmálaflokka sem hafa verið hérna lengi. En það er líka annar iðnaður sem er ekki endilega hægt að sjá fyrir að þurfi eða alla vega geti ekki blómstrað betur með ódýru rafmagni. Það að hafa ódýrt rafmagn er dýrmætt. Það býður nýjum iðnaði upp á að prófa nýjar lausnir, sér í lagi þegar kemur að lausnum í sambandi við orkuskipti getur það verið lykilatriði í að það geti gengið upp. Þá er mikilvægt að yfirvöld hafi ekki verið að beina kröftum sínum á tilteknar iðnaðargreinar sem þeir sáu einungis fyrir um hvernig mundu virka kannski áratug eða tvo eða þrjá fram í tímann. Það þarf líka að leyfa markaðnum að nýta það svigrúm til tækniframfara og framþróunar sem ódýrt rafmagn getur veitt og reyndar einungis ódýrt rafmagn getur veitt.

Það þýðir að það sé nóg af rafmagni og það þýðir að því hafi ekki verið varið í iðnað sem fyrir fram þarf þorra orkunnar sem við getum boðið upp á og getum (Forseti hringir.) selt til fyrir fram ákveðinnar notkunar.