kostnaður við ívilnanir til stóriðju.
Virðulegur forseti. Hv. þm. Björt Ólafsdóttir talaði um kostnað vegna byggingar virkjana. Við hin tölum flest um fjárfestingar, arðbærar, samanber það sem hæstv. fjármálaráðherra fór hér yfir varðandi Landsvirkjun áðan. Það eru margir ferðamenn sem koma hingað til að skoða náttúruna, en það eru jafn margir ferðamenn sem fara og skoða nýtingu okkar á sjálfbærum orkuauðlindum okkar, virkjanir okkar, og fara upp á hálendið. Þetta var okkur nauðsynlegt á sínum til uppbyggingar í dreifikerfi raforku í stóru en fámennu landi og hefur leitt af sér lægsta raforkuverð sem er borgað í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þannig hefur þjóðin notið óbeins ávinnings af þeirri stefnu sem hér var rekin.
Ívilnanir eru okkur nauðsynlegar ef við ætlum að laða erlenda fjárfestingu og innlenda til landsins og efla hana. Þar erum við í samkeppni við aðrar þjóðir og við bjóðum ekki bestu kjör sem bjóðast á þeim alþjóðavettvangi, það er alveg ljóst.
Við tölum um stefnu ríkisstjórnarinnar. Á þessu kjörtímabili, reyndar síðastliðið vor, var afgreidd út úr atvinnuveganefnd þingsályktunartillaga um nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Þar er ítarlega farið yfir þessi mál, hvernig við sjáum atvinnulífið þróast á næstu árum og áratugum. Þar horfum við til þess að stóriðja í þeirri merkingu sem hún hefur verið hingað til sé liðin tíð. Við lítum á uppbyggingu orkufreks iðnaðar eða orkuiðnaðar sem þarf 10–50 megavött úti um hinar dreifðu byggðir og leggjum mikla áherslu á innviðauppbyggingu í dreifikerfi raforku sem er nauðsynlegt til þess að öll landsvæði búi við sömu tækifæri í þeim efnum.
Undir þessa þingsályktunartillögu skrifuðu reyndar, og í henni felst stefna stjórnvalda, stefna Sjálfstæðisflokksins, fulltrúar allra flokka nema Bjartrar framtíðar. Björt framtíð skilaði auðu í þessum efnum, en við skrifuðum undir þetta, fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna. Það hefði einhvern tímann þótt heyra til frétta (Forseti hringir.) að við næðum okkur saman um það hvernig við sjáum íslenskt atvinnulíf byggjast upp í orkutengdum (Forseti hringir.) iðnaði á næstu árum og áratugum. En Björt framtíð skilaði auðu.