145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

kostnaður við ívilnanir til stóriðju.

[11:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil rétt eins og aðrir þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég ætla að leyfa mér að tala út frá hugmyndinni um pólitískan kostnað, samfélagslegan kostnað af pólitískum ívilnunum. Staðan er nefnilega sú að það er of þröngt að líta á þetta eingöngu út frá því sem við erum vön að kalla ívilnanir. Við erum með þá stöðu núna að stórfyrirtækin greiða ekki skatta hér að fullu vegna þess að hér skortir á löggjöf um þunna eiginfjármögnun. Árið 1995 var gefinn út bæklingur undir yfirskriftinni „Lowest Energy Prices“, til þess að laða að erlend stórfyrirtæki út á afsláttarkjör af íslenskri raforku. Þessir samningar eru margir enn í gildi. Við erum bundin í þá samninga. Það eru ærin samfélagsleg útgjöld.

Kárahnjúkavirkjun hefur verið (Gripið fram í.) nefnd hér og þar er gríðarlega mikill kostnaður. Heimilin í landinu hafa verið að borga reikninginn fyrir þessa afstöðu, fyrir stóriðjustefnuna, á hverjum einasta degi í öll þessi ár. En hér er að verða viðsnúningur og það er það sem við heyrum hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, það eru nýir tónar.

Ég vil bara minna þingheim á að það er ekki lengra síðan en þegar núverandi ríkisstjórn tók við að þáverandi og núverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, talaði um að nú væri lag að kippa í liðinn þessu álveri í Helguvík. Það eru bara nokkur ár síðan. Hér talar fjármálaráðherra um að álverum muni ekki fjölga. Það er sem betur fer aukin áhersla á náttúruvernd.

En við erum enn þá að beita pólitískum ívilnunum í þágu stórfyrirtækja. Síðasta dæmið er það ólánsmál sem nú er til skoðunar hjá atvinnuveganefnd sem að líkindum fer í bága við (Forseti hringir.) EES-reglur, Árósasamninginn, almenn sjónarmið (Forseti hringir.) um málsmeðferð og (Forseti hringir.) fjölmörg ákvæði stjórnarskrár Íslands.