kostnaður við ívilnanir til stóriðju.
Forseti. Já, það er með sanni athyglisvert að heyra að þeir flokkar sem hafa hvað mest barist fyrir því að hér séu byggð álver og þeim afhent orkan á miklu útsöluverði séu að hverfa frá þeirri framtíðarsýn. Ég man alltaf eftir teikningu af Íslandi frá þeim sem sáu fyrir sér að Ísland ætti að verða ál-land. Það var eiginlega búið að setja álver á hvern einasta hugsanlega hluta landsins þar sem hægt var að pota slíku niður.
En það eru aðrir tímar í dag. Ég vonast til þess að hægt sé að nýta sér aðkomu okkar að Parísarsáttmálanum til að móta langtímastefnu um hvernig við ætlum að nýta okkur þær gjafir jarðar sem hér má finna og ekki bara með hámarksarðsemi að leiðarljósi heldur líka hámarksvirðingu fyrir framtíðinni. Eins og var nú hart barist fyrir því að koma á þessu álveri fyrir Alcoa í Reyðarfirði, miðað við þær fórnir sem hafa verið færðar, er þeim mun sárara að sjá að ekki hefur verið tekið á því að þeir geti fært arðinn úr landi. Þetta stóra og mikla fyrirtæki tekur ekki þátt í að byggja Ísland upp heldur að framkvæma það sem mörgum Íslendingnum finnst réttlætanlegt, að fara á svig við lög og nýta sér skattaívilnanir og -skjól.