145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

kostnaður við ívilnanir til stóriðju.

[11:42]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið mjög góð og upplýsandi. Það voru sérstaklega tvær spurningar sem ég beindi til hæstv. ráðherra, í fyrsta lagi um að hann tæki saman eða hvort hann gæti slegið á allan útlagðan kostnað varðandi uppbyggingu fyrir stóriðju sem felst í raflínulögnum, hafnarmannvirkjagerð, vegum og öðrum innviðum. Ég geri mér grein fyrir að það er erfitt að koma með tölu á það núna en ég mun koma fram með spurninguna aftur í skriflegri fyrirspurn til ráðherrans.

Svo var það hvort hann vildi losa um eignarhaldið á Landsvirkjun. Ég heyri að hann er farinn að draga úr aftur, hann opnaði á það fyrr á kjörtímabilinu. Við í Bjartri framtíð erum sammála um að það eigi ekki að selja Landsvirkjun en við erum ósammála ráðherranum af því að hann segir: Það á ekki að losa um eignarhaldið af Landsvirkjun, en hann lokar ekki fyrir að það eigi að halda áfram að virkja, ókei, ekki fyrir álfyrirtæki en hvað með kísilmálmverksmiðjur sem hér bíða og menga miklu meira en álverksmiðjur? Hvað með það?

Ég segi að við getum fengið nóga orku á Íslandi án þess að virkja nokkurn skapaðan hlut. Það gerum við með því að hætta að semja við álfyrirtækin. Þau eru búin að vera hér í 20–30 ár, þau eru alveg búin að fá fyrir sína fjárfestingu. Nú eru þetta bara ekkert góðir samningar lengur. Nú geta þau bara farið eitthvert annað. Við þurfum að vera ábyrg í því að stjórna, við eigum ekki að vera í einhverri meðvirkni með álfyrirtækjum. Það á að stytta þessa samninga, svo á að hætta þeim. Landsvirkjun á að greiða meiri arð, hún er að fara að gera það, en ég vil sjá enn þá hærri tölur en hæstv. ráðherra talar um. Hann talar um (Forseti hringir.) 200 milljarða eigið fé, já, en ein virkjun kostar 100 milljarða þannig að hvað er það í stóra samhenginu?