145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

kostnaður við ívilnanir til stóriðju.

[11:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ágætisumræðu hér í dag. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að það hafi verið góð stefna að nýta sjálfbæra orku á landinu og m.a. selja hana til stóriðjuvera sem kaupa orkuna allan daginn, dag og nótt, á hverjum degi, um helgar, allt árið um kring. Það er það sem einkennir þessi fyrirtæki, þau eru allt öðruvísi, frábrugðin langflestum öðrum iðnaðarfyrirtækjum hvað þetta snertir. Það hefur gert okkur kleift að nýta þetta mikla afl. Við nýtum þar hreina orku. Ef menn vilja ræða þessi mál í samhengi við vanda heimsins, sem er hlýnun loftslags, er ágætt að hafa það í huga hversu miklu í raun við skilum vegna eftirspurnar eftir áli með því að nýta þessa orku fyrir þá framleiðslu, vegna þess að flest ný álver eru í dag byggð í Kína fyrir kolaorkuver. Heildarmengunin vegna slíkrar framleiðslu er margföld borið saman við það sem gerist á Íslandi.

Ég lýsti því hér að ég teldi ekki rétt að stefna á fleiri álver á Íslandi. Síðasta álverið sem verið hefur í umræðunni er álverið í Helguvík. Ég sé ekki að það álver muni verða sér úti um rafmagn, það virðist ekki vera að fæðast nein lausn á því. Að öðru leyti sé ég ekki að það sé afl til þess að stefna á slík verkefni á næstunni. Ég vísa þar m.a. til rammaáætlunar og annarrar eftirspurnar sem við eru með fyrir framan okkur.

Heildarumfang ívilnunar er ákveðið af reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Það þýðir að það umfang ívilnunar sem stjórnvöld geta veitt getur rekist á þak og þá er stuðningnum hætt. Þegar spurt er um iðnaðarsvæðið á Bakka er um að ræða sérverkefni m.a. út af hafnargerð. Hafnargerð og jarðgöng hafa ekki talist til ívilnunar í regluverki Evrópska efnahagssvæðisins. (Forseti hringir.)

Ég þakka hér fyrir ágætisumræðu. Það er samhljómur um að til framtíðar munum við vera með aðeins aðrar áherslur, en ég vil skilja við þessa umræðu með því að segja að við höfum skapað feikilega mikil verðmæti fyrir samfélagið með því að nýta orkuna með þeim hætti sem gert hefur verið.