gjaldeyrismál.
Frú forseti. Við erum að ræða hér stórt mál sem maður hefði ætlað að meiri athygli yrði á miðað við hversu margboðað það hefur verið að hið stóra og mikilvæga skref sem menn vilja meina að afnám gjaldeyrishafta sé, eins og sumir segja, aðrir tala um slökun gjaldeyrishafta, ætti að vera eitt af forgangsmálum til afgreiðslu á þessu þingi. Um það er í sjálfu sér ágæt samstaða. Það hefur engin áhuga á að tefja fyrir því (Gripið fram í: Enginn í stjórnarflokkunum.) ef hægt er að taka skynsamleg og yfirveguð skref í þeim efnum. Þess vegna hefði maður alveg eins átt von á að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og formaður eða framsögumaður efnahags- og viðskiptanefndar væru hér við umræðuna. Ég hefði haft áhuga á að spyrja þessa aðila um nokkur atriði og fæ kannski færi til þess á eftir í lok máls míns.
Ég held að það sé hafið yfir vafa að setning gjaldeyrishaftanna á sínum tíma var óumflýjanleg aðgerð. Í það heila tekið held ég að það hafi þjónað okkur vel. Það var forsenda þess að við gátum tiltölulega fljótt komið á gengisstöðugleika og varið þjóðarbúið með ýmsum hætti í gegnum höftin, þótt enginn setti þau á með einhverri ánægju. Eftir á að hyggja voru hugmyndir um að síðan væri hægt að kippa þeim í burt eftir einhverja sex mánuði fullkomlega óraunhæfar. Þær aðstæður sköpuðust aldrei og hefðu sennilega aldrei getað skapast, m.a. af þeim ástæðum að við áttum engan gjaldeyri. Við vorum algerlega uppiskroppa með erlendan gjaldeyri á haustmánuðum 2008. Erlendir fjármálamarkaðir og lántökumöguleikar harðlokaðir. Um það var lítið að ræða. Gengisfall krónunnar breytti því vissulega tiltölulega fljótt einfaldlega vegna þess að raunhagkerfið hélt þó velli og útflutnings- og samkeppnisgreinar héldu áfram að skapa verðmæti. Margar að vísu laskaðar. En neysla landsmanna dróst harkalega saman og innflutningur þar með. Enda var hann nú ærið dýr þegar gengi krónunnar hafði fallið eins og raun bar vitni. Það leiddi fljótlega til þess að afgangur varð af viðskiptum við útlönd.
Stjórnarliðar hafa sumir talað um afnám hafta. Að þetta sé frumvarp um afnám hafta. Auðvitað skipta slíkir merkimiðar ekki miklu máli. Mér finnst samt leiðinlegt þegar menn nota rangar nafngiftir á hlutina. Þetta er ekki afnám fjármagnshaftanna, mér liggur við að segja sem betur fer. Ég er ekki viss um að það væri mjög skynsamlegt að henda þeim með öllu. Það þarf nú ekki frekari vitna við en að lesa fyrstu grein þessa frumvarps. Hvað stendur þar? Með leyfi forseta:
„Allar fjármagnshreyfingar samkvæmt 1. mgr. […] eru óheimilar“.
Að undanskildum fjármagnshreyfingum sem sýnt er fram á að séu vegna ... Og svo koma undanþágurnar. Ekki er verið að snúa við þeirri grundvallarreglu að fjármagnshreyfingar til og frá landinu eru ekki frjálsar. Þær eru óheimilar nema þær falli undir undanþágur. Með öðrum orðum: fjármagnshöftin eru enn við lýði. En það er vissulega rétt að hér eru tekin fyrstu talsverðu skrefin í að rýmka þær reglur umtalsvert. Allt er talið þarna upp, sem sagt vegna vöru eða þjónustu, viðskipta, launa, gjafa og styrkja, vaxta, leigutekna, uppborgana og fyrirframgreiðslna á lánum og annarra slíkra hluta. En áfram er grundvallarreglan þessi: Það þarf undanþágur eða leyfi fyrir fjármagnshreyfingum nema þær falli skýrt undir undanþágurnar, séu þess eðlis eða það lágar í fjárhæðum að þær rekist ekki á þökin.
Þetta er auðvitað gert vegna þess að menn vilja taka hér yfirveguð skref og hafa áfram ákveðin stýritæki, geta stjórnað stórum fjármagnshreyfingum sem gætu ella haft veruleg áhrif til ójafnvægis á gjaldeyrismarkaði. Þetta verður blanda af hraðatakmörkunum gagnvart aðilum eins og lífeyrissjóðum sem fá þá einhverja skammta til erlendra fjárfestinga, eins og þeir hafa reyndar gert núna undanfarin missiri, og svo beinlínis því að tilteknar stórar hreyfingar eru tilkynninga- og leyfisskyldar. Reyndar ætlar Seðlabankinn sér að hafa eftirlit með þessum hreyfingum langt umfram það sem undanþágurnar opna á, sem er alveg eðlilegt.
Þetta mun hins vegar leiða til þess, sem vissulega er ánægjulegt, að allur þorri almennings og fyrirtækja hættir að taka eftir því að hér séu fjármagnshöft vegna þess að menn geta stundað sín dagsdaglegu viðskipti og keypt sér ferðamannagjaldeyri og hvað það nú er án þess að þurfa að standa sérstaklega í biðröð t.d. við hraðbankann í Keflavík, eins og henti ónefnda alþingismenn Íslendinga þegar höftin voru skollin á haustið 2008. Það voru nú þung spor, hygg ég, fyrir suma talsmenn frelsisins í þessum efnum.
Það er að sjálfsögðu gott að geta liðkað þetta þannig til. Af því hef ég engar tiltakanlegar áhyggjur. Það eru að sjálfsögðu stóru hreyfingarnar sem eru varasamar í þessum efnum og það er spekúlasjón og það er hætta á einhverju slíku, sem alltaf er varhugavert. Nú eru menn að reyna að læra af biturri reynslu og Seðlabankinn hefur fengið stýritæki sem hann telur duga, að ég best veit, til að sporna gegn vaxtamunarviðskiptum og braski af því tagi. Væntanlega ætlum við ekki að fara að búa til nýja snjóhengju meðan umtalsverður vaxtamunur er hér milli Íslands og annarra landa. Þar með erum við að einhverju leyti varin fyrir þeirri spákaupmennsku. En samt er þetta nú allt vandasamt. Aðstæðurnar eru mjög sérstakar. Sagt er í greinargerð með frumvarpinu, það kemur að einhverju leyti fram í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar og étur svo sem hver upp eftir öðrum, að aðstæður til afnáms hafta eða rýmkunar, losunar, þeirra, sem er réttnefnið, séu mjög hagstæðar og eiginlega að flestu leyti taldar hagstæðar.
Já. Undir það má taka að mestu leyti. En þær eru samt óvenjulegar. Við höfum búið við mikið innstreymi gjaldeyris á síðustu missirum. Það hefur komið sér geysilega vel, það er út af vexti ferðaþjónustunnar og að einhverju leyti fjárfestinga. Það hefur gert það kleift sem eiginlega maður þarf að klípa sig í handlegginn til að trúa, að við höfum eignast nokkuð myndarlegan óskuldsettan gjaldeyrisvaraforða á örfáum missirum. Það er nú staða sem mann dreymdi nú ekki beinlínis um hérna þegar við áttum alls engan gjaldeyri 2008 og lengi vel 2009 og þurftum að taka það allt að láni sem við drógum inn til að byggja upp forða til að tryggja að við ættum fyrir afborgunum sem voru að falla á landið 2010–2011 og til þess að tryggja að ekki yrði greiðslufall af hálfu ríkisins eða stórra aðila sem áttu í vændum þungar afborganir af lánum þannig að örugglega yrði til gjaldeyrir til að mæta öllu slíku.
En nú hefur Seðlabankinn sem sagt keypt gríðarlegt magn gjaldeyris, þar af bara 230 milljarða króna á þessu ári. 270 milljarðar voru keyptir í fyrra, árið á undan, þannig að samtals eru þetta 500 milljarðar í krónum sem keyptir eru á markaði af erlendum gjaldeyri og settir inn í forðann sem skuldlaus hluti hans. Það er nú stærstur hluti og mikill meiri hluti forðans án þess að á móti standi erlend lán. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt og ein af forsendunum sem þurftu að vera til staðar. Auðvitað hefðum við tímabundið getað mætt útflæði með skuldsettum forða en það er háskalegt að nota til þess gjaldeyrisforða sem tekinn er að láni og á að endurgreiðast síðar, kannski innan fárra ára. Það setur strax þrýsting á stöðu ríkisins á alþjóðlegum fjármálamarkaði o.s.frv.
Þetta er auðvitað í alla staði mjög ánægjulegt, að við getum núna tekið á okkur þó nokkrar útgreiðslur eða útstreymi, ef það yrði, án þess að beinlínis komast í hættu af þeim sökum.
En það er að fleiru að hyggja í þessum efnum. Ég hef ekki síður áhyggjur af því. Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst um 11% frá áramótum, mælt á tiltekinn hátt, samtals um 20% á tveimur síðustu árum. Gengi íslensku krónunnar er núna komið yfir það sem Seðlabankinn telur jafnvægisgengi. Það er með öðrum orðum orðið fullsterkt nú þegar miðað við þær viðmiðanir sem Seðlabankinn notast við þegar hann reynir að átta sig á hvað væri jafnvægisgengi.
Það á sinn þátt í því að gamalt hættumerki sem alltaf hefur nú verið, vöruskiptajöfnuðurinn, er orðinn bullandi neikvæður. Við flytjum sem sagt inn á þessu ári eitthvað á milli 70 og 100 milljörðum meira af vörum en við flytjum út. Hvað hefði það nú sagt okkur í gamla daga? Jú, það hefði alltaf verið ávísun á mikil vandræði innan skamms. En við komumst upp með það vegna hins ævintýralega vaxtar ferðaþjónustunnar. Þjónustujöfnuðurinn er svo myndarlega jákvæður að við getum búið við bullandi vöruskiptahalla og samt er útkoman í plús. Það er auðvitað vegna þess að gjaldeyrisinnstreymið vegna ferðaþjónustu eða ferðaþjónustu og samgangna, sem eru víst í þeim flokki, er orðið svo gríðarlega mikið. Áætlað er, ef ég man rétt, að á þessu ári verði það 430 eða jafnvel 450 milljarðar, t.d. vex kortavelta erlendra ferðamanna gríðarlega, fjöldi þeirra og allt það. Þetta verða jafnvel yfir 500 milljarðar á næsta ári. Það er að vísu brúttótalan sem þýðir einfaldlega að ferðaþjónustan skilur aðrar gjaldeyrisöflunargreinar eftir í reyk. Hún er komin yfir einn þriðja. Hún fer að slaga í 40% af allri gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. En það þýðir líka að við erum orðin rosalega háð þessari einu grein. Sveiflur þar mundu koma af miklum þunga inn í gjaldeyrisjöfnuðinn og gengið.
Með öðrum orðum: Íslenska hagkerfið er ekki lengur byggt á þorski heldur ferðamönnum, ef við notum gömlu einföldunina þegar stærsta einstaka breytan var alltaf þorskurinn, hvað veiddist af honum og hvaða verð við fengum fyrir hann á erlendum mörkuðum. Við erum orðin miklum mun háðari ferðamanninum en þorskinum á sínum tíma eða þangað til fyrir fáum árum. Þá er líka að mörgu að hyggja í þessum efnum. Auðvitað vonar maður að þetta gangi allt saman vel áfram og að áætlanir standist um að viðskiptajöfnuðurinn í heild verði jákvæður næstu þrjú árin. Ég sé að bankarnir gera ráð fyrir því, en allir reikna þó með að afgangurinn minnki talsvert. Neyslan og innflutningurinn vaxa mjög hratt, vöruútflutningurinn bætir ekki neinu í, að hluta til vegna þess að verð á áli er lágt o.s.frv. Þá veðja menn á vöxtinn í ferðaþjónustunni. En þar er um að ræða býsna kvika grein. Gjaldeyrissveiflur, gengissveiflur, hafa alltaf verið eitt það allra versta við að eiga hér. Það má ekki á milli sjá ef maður fer yfir hagsöguna hvort hafi reynst okkur verr, þótt birtingarmynd spegli hvað annað, óraunhæf styrking krónunnar og svo gengishöggin sem koma í kjölfarið þegar jafnvægisleysið er orðið algert. Það hefur oft farið mjög illa með okkur þegar ójafnvægið hefur byggst upp í gegnum ferlið þegar gengi krónunnar var allt of sterkt. Frægust í þeim efnum eru árin fyrir hrun þegar menn leyfðu hér stjórnlaust innstreymi erlends lánsfjármagns og það að hluta til inn í vaxtamunarviðskipti, og þegar fullkomlega óraunhæfu gengi var haldið uppi á krónunni. Það fór líka illa með okkur þegar gengið var fest í bullandi verðbólgu á níunda áratugnum og sprengdi nú eina ríkisstjórn í loft upp.
Ég nefni þetta hér vegna þess að þarna þurfum við að gæta vel að okkur. Auðvitað væri það ekki áhyggjuefni ef við ætluðum að rýmkun á höftunum leiddi frekar til veikingar gengisins en hitt. En það er ekki hægt að segja fyrir um það með fullri vissu. Þrýstingurinn er á gengið upp. Hversu lengi getur Seðlabankinn keypt, verið stór nettókaupandi á markaði? Ef hann hættir því, hvað gerist þá? Í tengslum við þessa rýmkun á höftunum hefðu menn kannski sagt: Það er nú kannski ekki ástæða til að taka áhættu á því að Seðlabankinn haldi áfram kaupum. Leyfum þessu nú aðeins að jafna sig og sjáum hvað gerist. En þá gætu líka áhrifin orðið áframhaldandi styrking gengisins, að minnsta kosti um einhvern tíma. Þá held ég að færu að byggjast upp verulegar hættur.
Ég hefði sem sagt haft mikinn áhuga á að heyra hvað hin djúpvitra efnahags- og viðskiptanefnd og framsögumaður hennar og þess vegna hæstv. fjármála og efnahagsráðherra hafa náð að fara vel ofan í þessa þætti málsins. Auðvitað er eðlilegt að við ræðum þetta allt saman þegar við stígum skref af þessu tagi, hversu góða fótfestu höfum við og vissu fyrir því að þetta geti gengið allt saman fyrir sig án vandræða og án þess að eitthvert jafnvægi raskist í þeim efnum. Ef við horfumst í augu við þetta er meginskýringin á því að við erum yfirhöfuð að tala um að við séum í þessari stöðu hinn ævintýralegi vöxtur ferðaþjónustunnar. Við værum ekki að tala um góðar aðstæður til að afnema gjaldeyrishöft ef ferðaþjónustan hefði bara haldið sjó síðastliðin þrjú, fjögur ár og við værum með 70–100 milljarða halla á vöruskiptajöfnuði. Þá er ég hræddur um að menn mundu segja: Bíddu nú við, þetta er ekki gott. Enda væri það það ekki. Auðvitað væri þá gengið á öðrum stað. Þetta hefur allt áhrif hvert á annað. En ferðaþjónustan er líka að mörgu leyti þess eðlis að hún getur verið býsna kvik, til dæmis út af gengisbreytingum. Við vitum ekkert enn hvaða áhrif þessi 20% styrking gengisins smátt og smátt á tveimur árum mun hafa á ferðaþjónustuna þegar við bætist að vegna vaxtarins hefur verðlagið hér innan lands algerlega rokið upp. Það vita allir að t.d. verðlag á veitingahúsum hér í miðbænum, verðlagning á vínum eða öðru slíku, er orðin alveg ævintýraleg. En menn geta þetta því að það er allt fullt kvöld eftir kvöld. Og menn borga jafnvel 7 þús. krónur fyrir meðaldýra léttvínsflösku sem kostar innan við 2 þús. kr. út úr Ríkinu. Það er bara svona.
Hvenær gæti komið bakslag í þetta? Ég tala nú ekki um ef gengið héldi áfram að styrkjast eða eitthvað annað gerist, sem alltaf er erfitt að sjá fyrir. Vandinn er sá að þegar grein hefur vaxið nánast veldisvexti af þessu tagi, 20–30% ár eftir ár, þá gírar allt sig inn á vöxtinn. Menn byggja hótel, panta inn í bílaflotana í raun og veru til þess að mæta vextinum, eðlilega. Það eru menn að reyna að gera. En það þýðir að jafnvel ekki samdráttur heldur bara allt í einu núll vöxtur gæti komið eins og högg á þessa grein. Það færi þá að taka í ef ekki tækist að fylla nýju hótelin sem bætast við á hverju ári. Við verðum að reyna að greina svona undirliggjandi þætti þegar við veltum því fyrir okkur hversu sterk staðan er. Ég verð að játa, frú forseti, að það er eitthvað aðeins ónotalegt í hnakkanum á mér þegar ég hugsa um þessi mál, að við séum kannski pínulítið sofandi gagnvart því að horfast í augu við vissar hættur sem eru að teiknast upp. Það er þannig. Ég vil vera bjartsýnn og trúa því að þetta geti gengið vel, en ég segi alveg eins og er að mér liði betur með hægari og jafnari vöxt t.d. í ferðaþjónustu. Þá hefði ég meiri trú á að þetta gæti haldið áfram enn um sinn að minnsta kosti án hættunnar á bakslagi. Ég þekki engin dæmi þess í sögunni að eitthvað geti vaxið árum eða jafnvel áratugum saman nánast veldisvexti án þess að það endi með einhverjum ósköpum. Sagan kennir manni það. Þótt ekki væri nema af ýmsum öðrum ástæðum eins og þeim sem snúa að náttúru landsins og fleiru og þolmörkunum gagnvart eiginlega öllu, gagnvart náttúrunni, innviðunum, íbúum landsins o.s.frv., held ég að við þurfum að fara að gæta að okkur. Þess vegna gæti reynst dálítið varasamt að þessi ævintýralegi afgangur af ferðaþjónustunni dugi okkur til að sigla áfram fullum seglum þó að við séum komin með verulegan halla á vöruskiptajöfnuð og svo framvegis.
Ég er að hugsa um að blanda mér ekkert inn í djúpar umræður sem hér hafa farið fram um upplýsingasöfnun Seðlabankans og 12. gr. Mér fannst framsögumaður gera vel grein fyrir því og að þar hefði nefndin með breytingartillögum sínum á 12. gr. komist að vel yfirlögðum og vel vönduðum niðurstöðum. Ég fæ ekki séð annað. Ég tek að sjálfsögðu undir mikilvægi þess að menn gæti hófst í þeim efnum, að hafa ekki óþarfar eða algerlega galopnar og óskilgreindar heimildir til að krefjast hvaða upplýsinga sem er. Auðvitað óskar enginn eftir því, held ég, og ekki Seðlabankinn sjálfur. Hann hefur engan áhuga á öðru en því sem honum kemur við og hann þarf á að halda vegna ábyrgðar sinnar og starfa sinna. En það er okkar hlutverk að sjá um að það sé skynsamlega afmarkað í lögum. Mér sýnist að breytingartillögurnar mæti ákveðinni gagnrýni sem frumvarpið sætti eins og það kom fram.
Þetta var nú sem sagt það, frú forseti. Þótt hér sé orðið naumt um tíma og við á síðustu metrunum í þessu þinghaldi hefði nú einhvern tíma verið talið tilefni til að taka smá eldhúsdag hér um efnahagsmál og gjaldeyrismál þegar stór mál af þessu tagi eru á leiðinni í gegnum þingið.