145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[15:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að lýsa yfir stuðningi við þá hugmynd sem hv. þingmaður kom með í lokin, að hafa sérstakan eldhúsdag um efnahagsmál og gjaldeyrismál. Það er sennilega sá málaflokkur í stjórnmálum sem reiði manna hefur helst beinst að eftir hrun, sumir segja e. Kr., sem sé eftir kreppu. En burt séð frá því vil ég segja sem borgari og hv. þingmaður á þingi í nokkurn tíma, og því er ekki nýtt að ég hlýði á orð hv. þingmanns um efnahagsmál, að ég hef tekið eftir því í áranna rás, löngu fyrir hrun, þótt ég hafi nú aldrei verið stuðningsmaður Vinstri grænna, að það var eiginlega bara hv. þingmaður og flokksmenn hans sem vöruðu við því að þetta gæti farið illa. Ég legg því við hlustir þegar hv. þingmaður talar þótt við séum kannski ekki sammála um allt í pólitík.

Hv. þingmaður fór í upphafi sinnar ágætu ræðu yfir það að hér er ekki verið að afnema fjármagnshöftin, gjaldeyrishöftin eða hvað þau eiga að kallast, heldur er verið að breyta þeim aðeins. Þess vegna velti ég fyrir mér, ekki síst út af upplýsingasöfnunarmálunum sem ég hef svo ríkar áhyggjur af inn í framtíðina, þrátt fyrir ágætt starf hv. efnahags- og viðskiptanefndar: Munum við nokkurn tíma geta verið með íslenska krónu án þess að vera með hana í einhvers konar höftum, og þá auðvitað meðfram einhverjum heimildum, til dæmis Seðlabanka eða annarra eftirlitsstofnana sem fylgjast með því að hér fari ekki allt í steik af þeim sökum?

Ég velti því fyrir mér vegna þess að ég veit að hv. þingmaður og þingflokkur hans er ekki hlynntur aðild að Evrópusambandinu en menn segja að það sé eina leiðin til að taka upp aðra mynt. Ég hef nú reyndar orðið trúminni með tímanum á þá fullyrðingu. En mér þætti gaman (Forseti hringir.) að heyra viðhorf hv. þingmanns í sambandi við það. Verðum við ekki alltaf í höftum með einum eða öðrum hætti?