145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[15:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þá erum við aftur komin að spurningunni um nafngiftir. Ég og fleiri lögðum á það áherslu á sínum tíma þegar við vorum að ræða um núverandi höft að þetta væru höft á fjármagnshreyfingar. Þetta væru ekki í sjálfu sér gjaldeyrishöft í gamla skilningnum vegna þess að við þyrftum að skammta gjaldeyri og ættum ekki nóg af honum, því að það í sjálfu sér áttum við til eyðslu og daglegra þarfa. Þetta voru fjármagnshöft vegna þess að hagkerfið var svo óvarið og opið fyrir sviptingum vegna stórra fjármagnshreyfinga. Þetta er auðvitað með þessari rýmkun hér að færast enn fjær því að vera gjaldeyrishöft. Þetta eru orðin enn þá meira sértæk fjármagnshöft á stórar hreyfingar. Eru það gjaldeyrishöft, eru það höft? Já, við getum kannski sagt að enn þá eigi sú nafngift við. En ef næstu skref verða kannski enn frekari rýmkun á þessu, hækkun á fjárhæðarmörkum, og í raun og veru aðallega leyst af hólmi með því sem stundum er talað um sem einhvers konar þjóðhagsvarúðartæki, möguleika til að grípa inn í, til að bremsa af einhverjar mjög stórar hreyfingar, þá finnst mér það vera orðið álitamál hvort rétt sé að tala um það sem höft. Þá spyr ég á móti: Hvað er að því? Eigum við ekki fyrst að ræða það? Er það vont? Er óæskilegt að við höfum einhver varúðartæki til þess að verja okkur? Það held ég ekki. Ég er ekki feiminn við að segja það. Og er ekkert endilega viss um að það eigi að skipta máli í þeim efnum hvort menn eru með stærri eða minni gjaldmiðil. Hvers vegna skyldu sjálfstæð hagkerfi ekki búa yfir varúðartækjum sem þau geta beitt til að verja efnahag sinn og samfélög sín fyrir höggum? Ég er enginn sérstakur áhugamaður um það að mislukkuð tilraun verði aftur endurtekin um að reyna að fleyta algerlega meðvitundarlaust íslensku krónunni (Forseti hringir.) og horfa sofandi á allt fljóta að feigðarósi. Þá vil ég frekar einhver skynsamleg varúðartæki.