gjaldeyrismál.
Virðulegi forseti. Vandi minn er sá að ég er eiginlega sammála hv. þingmanni en þó meira af praktískum ástæðum en prinsippástæðum. Mér finnst vont í eðli sínu að hafa þessar takmarkanir. Það er ekki þar með sagt að ég sé á móti þeim því að þær geta verið nauðsynlegar, einmitt vegna þeirra aðstæðna sem hv. þingmaður var að lýsa. Ef við erum með algerlega fljótandi krónu og erum ekkert að fylgjast með þessu er voðinn vís vegna þess að við búum í pínulitlu hagkerfi. Og jafnvel þótt það væri þó nokkru stærra væri alltaf möguleiki á því, þótt ekki væri nema vegna gerðar hagkerfisins, vegna þess á hvað við stólum til verðmætasköpunar, nefnilega sjávarútveginn og ferðamannaiðnaðinn og fleiri slíkar iðnaðargreinar sem eru í raun útflutningsgreinar.
Ástæða þess að mér þykja þessi höft slæm er ekki vegna þess að mér finnist mikilvægt að menn komist með 100 milljarða milli landa heldur vegna eftirlitsins sem það krefst, eins og maður þarf lögreglu, meiri lögreglu eftir því sem vandinn er stærri. Ég er ekki (Forseti hringir.) á móti því að það sé til lögregla, en mér finnst svo mikilvægt að hafa hemil á henni og ég vil þurfa hana sem minnst. (Forseti hringir.) Ég vil þurfa höftin sem minnst. Það er aðallega það sem ég set fyrir mig þegar kemur að höftunum. (Forseti hringir.) Hvort þetta eigi að kallast gjaldeyrishöft eða fjármagnshöft, ég er ekki viss. Mér er svolítið sama svo lengi sem það er á hreinu hvað við erum að tala um.