145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[15:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu hans. Þingmaðurinn segir réttilega að hér sé ekki verið að afnema höftin, það sé verið að rýmka þau nokkuð, en bætir við að það sé enda varla skynsamlegt við núverandi aðstæður að rýmka þau frekar en hér sé verið að gera. Þá vaknar auðvitað spurningin hvort það sé yfir höfuð skynsamlegt, eins og aðeins kom til tals í andsvörum áðan. Ég vildi inna þingmanninn eftir því hvaða takmarkanir verða eftir þessar breytingar í gildi sem hann telur að væri mikilvægast að vinna að rýmkun á. Hvaða takmarkanir eru það sem helst eru til trafala eða væri gott að losna við af því sem eftir stendur af höftum eftir þessar breytingar? Og kannski í annan stað hvort þingmaðurinn hafi áhyggjur af vaxtamunarviðskiptum. Við höfðum allnokkra reynslu af þeim á sínum tíma og hana sannarlega ekki allskostar góða. Seðlabankastjóri hefur jú látið hafa eftir sér um vaxtamunarviðskipti að það sé með þau eins og ýmislegt annað í mannlegu samfélagi, í hófi séu þau ágæt. Hefur þingmaðurinn áhyggjur af því m.a. vegna gengisþróunarinnar og vaxtamunarins að hér geti færst líf á ný í vaxtamunarviðskipti í kjölfar þessara breytinga?