145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[15:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég svo sem veit ekki hvar maður ætti að bera niður þá með það hvað ætti að rýmka meira í næstu umferð. En sjálfsagt mundu einhverjir telja að þessar 100 milljónir samanlagt á ári í 6. tölulið 2. mgr. a-liðar 1. gr. væru fjárhæð sem mætti alveg vera hærri. Einhverjir mundu sjálfsagt segja það og aðrir að það væri fulllítið að geta bara keypt eitt hús á ári eða eitthvað svona. Það eru áfram svoleiðis hlutir þarna inni. En mér finnst langmikilvægustu undanþágurnar vera að vöru- og þjónustuviðskiptin almennt séu komin undan þessu og gjaldeyriskaup einstaklinga til ferðalaga og annað slíkt séu ekki háð takmörkunum. Það er auðvitað sú rýmkun sem ég held að flestir muni finna fyrir, annars vegar einstaklingar og hins vegar fyrirtæki. Það er ekki mikið meira að sækja í það. Það er þá spurningin hvort á að lyfta eitthvað þökunum af þessum stóru hreyfingum.

Varðandi vaxtamunarviðskiptin varð ég strax órólegur þegar fór að kræla á þeim hér aftur. Ég varð það strax haustið 2005 þegar þau byrjuðu, ef ég man rétt, frekar en 2004. Ég man að þá fékk ég menn úr gjaldeyrisdeild Landsbankans á fund til mín og í spjall við mig sem formann Vinstri grænna. Þá voru þetta orðnir 40 milljarðar sem höfðu komið inn í vaxtamunarviðskiptum um haustið. Mér fundust það heilmiklir peningar og ég spurði: Hafið þið ekki áhyggjur af þessu? Nei, þeir höfðu nú ekki miklar áhyggjur af því. Bíddu, endaði þetta ekki í 700–800 milljörðum? Það var orðin svoleiðis firnaleg stærð í hagkerfinu að það var ævintýralegt. Þess vegna er ég talsmaður þess að menn séu mjög fljótir á bremsuna ef þetta lætur á sér kræla. Sem betur fer hefur hvatinn orðið minni en menn óttuðust vegna þess að verðbólgan hefur, af utanaðkomandi ástæðum, verið svo lág að Seðlabankinn hefur ekki farið upp með vextina eins og hann lét ítrekað í skína eftir kjarasamninga. Og hann er kominn (Forseti hringir.) með bindiskyldumöguleikann, bindingarmöguleikann, sem er beinlínis ætlaður til að geta bremsað þetta niður. (Forseti hringir.) Ég hef metið það svo eða heyrt að hann telji það fullnægjandi í bili og þá það.