gjaldeyrismál.
Frú forseti. Aðeins meira um vaxtamunarviðskiptin. Við þurfum líka að horfa til ástandsins í umheiminum þegar við metum hættu okkar í þeim efnum. Það er ekki um auðugan garð að gresja að ná góðri ávöxtun á skammtímafjármagn eins og vaxtastigið er í nálægum löndum og efnahagsástandið. Þess vegna hefur þetta verið að gerast hér og þar að menn hafa heldur betur fengið að finna fyrir því, Svisslendingar, Nýsjálendingar, Danir, því að þeir eru þrátt fyrir allt með danska krónu þó að hún sé tengd við evruna, en það er hægt að kaupa hana sem slíka. Við þurfum að gæta að því. Ísland gæti allt í einu dottið inn í og komist í tísku, nægur er vaxtamunurinn. Mér finnst vaxtastigið hafa verið allt of hátt. Ég verð að segja alveg eins og er að auðvitað er hægt að vera vitur eftir á, horfandi í baksýnisspegilinn, en ég græt alla þá miklu fjármuni sem hafa farið í þessa háu vexti undanfarin missiri þegar í ljós kemur að vegna lágs olíu- og hrávöruverðs og vegna styrkingar krónunnar hefur engin verðbólguþrýstingur verið. Ef ekki væru hækkanir á húsnæði á fasteignavísitölunni hefði verið verðhjöðnun á Íslandi. Auðvitað hefði manni fundist að vextirnir (Forseti hringir.) hefðu átt að geta verið miklu lægri. Það er miklu skárra að þeir séu þá lágir ef Seðlabankinn telur sig síðar meir þurfa að hækka þá, heldur en að hækka þá á miklu hærri stað.