gjaldeyrismál.
Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir þessa ræðu. Þar kom fram góður skilningur á efnahagsmálum og þeim vanda sem við stöndum alltaf frammi fyrir í svona litlu sjálfstæðu hagkerfi. Við erum auðvitað alltaf að elta skottið á okkur, alltaf að reyna að bregðast við einhverjum aðstæðum. Alveg eins og við þurfum að bregðast við þegar vaxtamunurinn verður of mikill og það verður innflæði. Við þurfum að bregðast við því að ferðaþjónustan vex hér mjög hratt. Þetta eru allt vandamál. Þessi greining var ágæt. Ég er ekki alveg viss um að allir séu jafn naskir á efnahagsmál í hans eigin flokki, ég tala nú ekki um fyrrverandi félaga sem núna eru í Alþýðufylkingunni, að þeir hafi þennan skilning á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.
Af því að hv. þingmaður spurði hvort við í efnahagsnefnd hefðum nokkuð verið sofandi yfir þessum hættum þá er svarið neitandi. Við erum ekkert sofandi yfir því. Við höfum áhyggjur. Þess vegna eru ýmis varúðartæki í frumvarpinu. Við hugsum út í varúðarsjónarmið, hvernig eigi að bregðast við. Þessi losun t.d. er til að bregðast við miklu innflæði, að við eigum þá möguleika á að fara með meira út til að bregðast við þessu svo að styrking krónunnar verði ekki enn meiri. Það er alveg rétt að hún er komin alveg að mörkum, að mínu mati. Við erum alltaf að glíma við þetta og þarna erum við búin að búa til tæki sem gefur okkur kost á að gera það. Hv. þingmaður talaði svolítið um ferðaþjónustuna, að hún hafi aukist og geti minnkað og þá væri kannski vöruskiptahallinn mikill eftir. Ég held, og spyr þingmanninn hvort hann sé ekki sammála því, að búast megi við að hallinn minnki ef fjárfestingar í ferðaþjónustu dragast saman, ef ferðamönnum fækkar. Þetta helst örugglega (Forseti hringir.) í hendur að einhverju leyti. Er þingmaðurinn ekki sammála því?