145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[16:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, að sjálfsögðu er það svo að þegar mikil uppbygging er og fjárfestingar hefur það áhrif á vöruskiptajöfnuðinn tímabundið til hins verra en getur verið fullkomlega réttlætanlegt ef það eru góðar og arðbærar fjárfestingar til framtíðar. Það er verið að endurnýja og kaupa inn talsvert af framleiðslutækjum og samgöngutækjum. Það var orðið brýnt og þarft og allt það. Þau eru þá til staðar þó að það þýði tímabundið meiri innflutning en útflutning. Ég er líka út af fyrir sig sammála því að losun eða rýmkun núna er á vissan hátt ágætismótleikur við hættunni á of miklu innflæði og of mikilli styrkingu krónunnar. Auðvitað eru það kjöraðstæður að taka þá frekar áhættuna á að hér verði eitthvert útflæði þegar í sjálfu sér getur verið efnahagslega ágætt að það stöðvi styrkingu krónunnar, sem ég bakka ekki með að er komin alveg á efstu mörk þess sem skynsamlegt er fyrir okkur til langs tíma litið. Ég held einfaldlega að þess færi að sjást býsna harkalega stað ef þetta héldi áfram eitthvað að ráði, að útflutnings- og samkeppnisgreinarnar færu að missa þróttinn. En allt er þetta að lokum spurning um einhverja takka sem stillast saman og þarf að reyna að finna besta jafnvægið í. Það er gott að heyra að efnahags- og viðskiptanefnd hefur reynt eftir bestu getu að fara yfir þetta. Ég efaðist svo sem ekkert um það, sú ágæta nefnd hefur unnið þetta eins vel og hægt er og fengið Seðlabankann og aðra sérfróða aðila til sín í þeim efnum. Ég held að við eigum alveg að hafa sjálfstraust til að taka þessi skref. Þetta hefur gengið nokkuð vel hjá okkur fram að þessu. Ég vil segja Seðlabankanum það til hróss að hann hefur ítrekað sýnt að hann hefur reynst vandanum vaxinn. Það er oft talað illa um hann og hann er skammaður fyrir of háa vexti o.s.frv. En mín reynsla af honum þessi árin, frá 2009, er sú að hann hafi í öllum aðalatriðum staðist prófið mjög vel (Forseti hringir.) og er það þó ekki öfundsvert hlutskipti fyrir einn seðlabanka að fá það óumbeðið í hendurnar að eiga að framkvæma gjaldeyrishöft.