145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[16:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er að verulegu leyti samhljómur í því sem við erum að segja. Í sjálfu sér held ég að það sé ekkert óskaplega mikill ágreiningur um þetta, nema þá helst einfaldlega um endapunktinn í þessu, hvort það sé raunhæft eða hagstætt fyrir okkur að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil eða ekki. Þann ágreining þekkjum við.

Eitt er held ég alveg ljóst, og það á reynslan að kenna okkur og ætti að vera búin að því fyrir löngu, að það er krefjandi verkefni og kallar á mikla ábyrgð og mikinn aga ef á að reyna að hafa lítið opið hagkerfi með sjálfstæðan gjaldmiðil. Það gerir sérstakar kröfur til ábyrgðar í þeim efnum. Ég fór aðeins yfir það hvað ég telji að þá þurfi til. Það þarf sterkan gjaldeyrisforða, það þarf föst tök á ríkisfjármálum, lága skuldastöðu o.s.frv. Menn mega ekki láta eftir sér kæruleysi eða sofandahátt í þeim efnum. Þess vegna er mjög mikilvægt að í hverju einstöku skrefi sé farið vel yfir þetta (Forseti hringir.) og greint hvort við séum sæmilega örugg með það sem hér er undir. Þess vegna hef ég verið með mínar hugleiðingar í þeim efnum, kannski meira fyrir sjálfan mig en aðra.