145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[16:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Maður hefur skilning á því að það taki hæstv. forsætisráðherra einhvern tíma að ná í formann Framsóknarflokksins og að það sé snúið fyrir þá að semja um hvaða mál eigi að leggja áherslu á hér. En við í þinginu getum ekki búið við þetta ástand lengur. Í hádegisfréttum útvarps kom fram forundran fréttastofunnar á þeirri stöðu sem hér er komin upp. Forseti á síðasta þingi neitaði einfaldlega að boða til þingfunda eftir að starfsáætlun var runnin út, nema ef ríkisstjórnin kæmi með forgangsmál á lista. Ég tel að við séum komin á þann stað núna. Það er tilgangslaust að sitja hér til þess eins að leyfa þessari ríkisstjórn að gefa þjóðinni þá ímynd að hér sé allt í uppnámi. Ríkisstjórnin veldur ekki verkefni sínu, hún ræður ekki við að ákveða hvaða mál hún vill reyna að komast áfram með. Þá ber forseta þingsins að verja þingið gegn svona slordónahætti eins og við megum sjá núna frá ríkisstjórninni og boða bara einfaldlega ekkert til þingfunda. Það er þess vegna bón mín til forseta að hann komi því á framfæri við forsætisnefnd. Það er eindregin ósk mín að fylgt verði því fordæmi sem áður hefur verið sett, að það verði ekki boðað (Forseti hringir.) til þingfunda fyrr en stjórnarmeirihlutinn komi með forgangslista.