gjaldeyrismál.
Virðulegi forseti. Andstætt því sem margir kannski halda hafa þingmenn ýmislegt annað að gera en að vera í þingsal og tala. Það er ekkert mál að nýta tímann vel hérna. Það eina sem þarf er að nýta hann yfir höfuð til að komast að því hvernig framhaldið verði. Í ljósi þess sem hv. 4. þm. Suðvest. nefndi áðan í sambandi við hv. formann Framsóknarflokksins og hæstv. forsætisráðherra velti ég fyrir mér hvort þetta sé spurning um að einhverjir tveir framsóknarmenn, vissulega háttvirtir og hæstvirtir, tali saman. Ef það er spurningin hlýtur maður að setja það í samhengi við yfirvofandi formannskjör. Ef það er það sem er að stöðva þingið eigum við bara að sleppa þessu þingi þar til það er komið á hreint og við getum farið að tala saman. Ég skil alla vega engan veginn hvers vegna við erum að halda þessu áfram hérna án þess að menn tali saman. Ég skil það raunverulega ekki. Ég skil ekki hvers vegna menn tala ekki hreinlega saman. Hvað er svona erfitt við það? Hvað á að vera svona ósanngjarnt við þá kröfu?