145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[16:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þetta þinghald er að verða hið kindarlegasta. Það var gert hlé á þingfundum á vorinu í nokkuð góðri sátt og voru afgreidd fjölmörg þingmál, málefnalega og vel og um það búið þannig að síðan kæmu menn saman til stutts þings í haust og ekki yrði sett nýtt þing í byrjun september. Það var loforð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Nú er svo búið að svindla á loforðinu með því að lengja gamla þingið inn í nýja þingið sem aldrei átti að halda. Hér damla þingstörfin áfram dag eftir dag og viku eftir viku langt fram yfir starfsáætlanir, margbrotnar, án þess að nokkur í ríkisstjórninni virðist vera með augun á þinginu eða að fylgja eftir þeim (Forseti hringir.) málum sem hér liggja inni. Forseti þingsins á náttúrlega bara að fylgja starfsáætlun eftir (Forseti hringir.) og ljúka störfum á morgun.