gjaldeyrismál.
Virðulegi forseti. Ég verð að vera sammála hv. þm. Brynjari Níelssyni um að það eru mörg þjóðþrifamál, mörg forgangsmál ríkisstjórnarinnar, sem við þurfum að sjálfsögðu að fá að taka til máls um í þessum þingsal. En það náttúrlega er búin að vera stóra spurningin undanfarna þrjá, fjóra mánuði hvaða mál það séu. Eru þetta menningarminjar og fleira? Mál um Minjastofnun? Eða erum við að tala um staðgöngumæðrun eða siglingalög? Skráningarmat fasteigna? Hvað erum við að tala um? Það er nákvæmlega það sem við erum búin að vera að biðja um undanfarna þrjá, fjóra mánuði; hver eru þessi blessuðu forgangsmál ríkisstjórnarinnar? Það eru svo mörg mál inni. Það liggur við að ríkisstjórnin tilkynni ný mál í hverjum einasta fréttatíma. Þetta er bara spurning um sjálfsagða kurteisi við þingheim að segja okkur hvernig við eigum að forgangsraða tíma okkar. Mér þykir það mál sem er til umræðu núna (Forseti hringir.) mjög mikilvægt, en kannski eru siglingalög mikilvægt mál hjá ríkisstjórninni.