gjaldeyrismál.
Virðulegi forseti. Ég vil fara um þetta mál nokkrum orðum þegar það kemur hér í 2. umr. Það er athyglisvert og kannski tákn um ráðleysið og upplausnina í þinginu að núna við 2. umr. málsins sem ríkisstjórnin var mynduð um skuli enginn vera í salnum fyrir utan hæstv. forseta og þann sem hér stendur. Maður verður eiginlega að velta því fyrir sér hvort sé yfir höfuð einhver ríkisstjórnarmeirihluti eftir í landinu.
Í þessu máli held ég að sé mikilvægt í byrjun að horfa til forsögu setningar gjaldeyrishaftanna. Þegar við lítum núna til baka þá var auðvitað mikilvægt að gjaldeyrishöftin voru sett á sínum tíma og þau voru nauðvörn sem var óhjákvæmilegt held ég að við getum verið sammála um núna að grípa til eftir hrun. Það var ekki einhugur um það þegar við sátum í viðskiptanefnd þingsins, eins og hún þá hét, á dimmu nóvemberkvöldi og ræddum þetta mál langt inn í nóttina og málið var afgreitt klukkan að verða fimm að morgni eftir miklar umræður í þingsal og í nefnd. Vegna þróunar mála fram að því var þessi ákvörðun óumflýjanleg. Þær efnahagsaðstæður sem voru í hruninu haustið 2008 verða í raun reglulega á Íslandi vegna þess að Ísland er lítið land og ungt land og þar af leiðandi lántökuland, tekur meira að láni en innlendur sparnaður stendur undir. Við tökum mikið að láni þegar vel gengur og þegar áhætta eykst í hinu alþjóðlega fjármálakerfi hækka áhættuálög, lánveitendur vilja aukið öryggi og þá leita peningarnir aftur út. Á Íslandi þurfa þeir alltaf að fara í gegnum gjaldeyrismarkaðinn og þá sunkar gjaldmiðillinn eins og steinn. Þetta gerðist á Íslandi á einni nóttu 2008 og blekkti á margan hátt sýn umheimsins á hrunið vegna þess að upplifun umheimsins í upphafi var að á Íslandi væru að gerast algjörlega sérstakir atburðir sem væru öðruvísi og annars eðlis í grundvallaratriðum en annars staðar í hinu alþjóðlega fjármálakerfi. Síðar kom í ljós að svo var ekki. Fleiri lönd lentu í hliðstæðum vanda. Ég nefni sérstaklega lántökulöndin á jaðri Evrópusambandsins, Grikkland, Spán, Portúgal. Þar leitaði fé aftur til baka til þeirra landa sem höfðu veitt lánin að stærstum hlut, Þýskalands og Hollands, en það fé fór í gegnum skuldabréfamarkaðinn og olli ekki hruni á einni nóttu eins og hér heldur langvarandi erfiðleikum í efnahagslífi þessara landa.
Það vakti athygli að það skyldi vera Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og sérfræðingar hans sem mæltu með setningu gjaldeyrishaftanna. Ég man eftir forustumönnum aðila vinnumarkaðarins sem voru eins og Tómas og vildu fá að þreifa á naglaförunum til þess að fá að vita að það væri raunverulega þannig að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væru að tala fyrir gjaldeyrishöftum. En staðan var svo erfið að þeir sáu enga leið til þess að hemja verðbólguna sem við var að glíma aðra en þá að setja á gjaldeyrishöft. Það var líka óhjákvæmilegt að setja gjaldeyrishöftin vegna þeirrar ófaglegu stjórnar sem var á Seðlabankanum á þessum tíma. Við vorum búin að lenda í gríðarlegum vandræðum með Seðlabankann mánuðinn á undan, fyrst þegar bankinn ákvað að lækka stýrivexti um 6 prósentustig á einni nóttu og þurfti svo að hækka þá aftur og svo líka þegar Seðlabankinn ákvað það að festa gengi krónunnar einn góðan veðurdag. Það dugði fram að hádegi þann sama dag, þá var fallið frá þeirri gengisfestingu. Seðlabankinn var algjörlega úti að aka, nú nefni ég ekki einu sinni Rússalánið, ég gleymdi því, hið fræga Rússalán sem auglýst var af hálfu Seðlabankans sem lausn á gjaldeyrisvanda Íslands. Það var þessi skortur á fagmennsku yfirstjórnar Seðlabankans sem gerði enn erfiðara að kljást við markað sem eiginlega var hruninn vegna þess að það var engin tiltrú á fagmennsku í Seðlabankanum eða getu hans til að taka á þessu máli.
Það sem höftin gerðu var að skapa okkur svigrúm til að koma efnahagsáætluninni áfram. Margir efuðust um að við kæmumst nokkurn tímann aftur úr höftum eða það mundi taka gríðarlangan tíma. Þegar við vorum komin innan hafta var erfitt að sjá fyrir sér aðstæðurnar þar sem við gætum náð lausn á þessu máli. Vandamálin voru gríðarleg eins og gleggst kom í ljós þegar við settum fram áætlun um afnám hafta í marsmánuði 2011. Þá var aflandskrónuvandinn metinn á nærri 30% af þjóðarframleiðslu og engar hliðstæður voru í efnahagssögu heimsins. Þá var ekki lokið skiptameðferðinni í þrotabúi hinna föllnu banka þannig að umfang vandans sem steðjaði að gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins var ekki einu sinni fullgreint. Menn vissu ekki um umfang hinna innlendu eigna erlendra kröfuhafa sem bættust í reynd við aflandskrónustabbann og þurftu líka að komast út. Við tókum á því með löggjöf í marsmánuði 2012 og felldum eignir erlendra kröfuhafa í þrotabú bankanna undir höftin og sköpuðum okkur þannig samningsstöðu og umgjörð til þess að vinna úr þessari stöðu.
Þegar maður horfði á þessum tíma fram á möguleikann á afnámi hafta þá var ekki mikil bjartsýni eins og ég segi. Það stafaði auðvitað af því að efnahagsgrunnur okkar og stærðirnar í hagkerfi okkar eru viðkvæmar. Sögulega séð hefur íslensk hagsaga einkennst af uppgangi sem dregur eiginlega alltaf með sér styrkingu gengis og bullandi viðskiptahalla sem síðan þarf að lagfæra með gengisfellingu og verðbólgu. Þetta er eiginlega saga íslenskrar hagstjórnar frá upphafi íslenskrar krónu. Á þessum árum var ýmislegt sem benti til þess að við værum að horfa í sömu átt. Kauphækkanirnar vorið 2011 fóru beint út í verðlagið og ollu samdrætti í þjóðartekjum undir lok árs 2012 og upphaf árs 2013, reyndar á allra versta tíma fyrir þáverandi stjórnarflokka. Strax það sumar hófst síðan sprengingin mikla í ferðaþjónustunni sem sér ekki fyrir endann á. Það má segja að viðbótarútflutningstekjur vegna fyrst makrílsins og síðan auðvitað gríðarlega jákvæður þjónustujöfnuður vegna ferðaþjónustunnar frá 2013 hafi algerlega breytt jafnvægisstöðunni í hagkerfinu og gert mögulega mikla styrkingu gengisins síðan þá og einnig að maður sjái fyrir sér að hægt sé að stíga hraðar frekari skref í afnámi gjaldeyrishafta.
Innflæðið frá 2013 hefur styrkt gengið svo mjög að menn telja nú að það sé komið yfir meðaltalsraungengi og því eru ákjósanlegar aðstæður núna til þess að ráðast í skref til þess að opna frekar fyrir heimildir til frjálsra gjaldeyrisviðskipta. Við megum alveg við útflæði sem við máttum ekki alveg við árið 2011, 2012 eða 2013 og engin leið að sjá fyrir sér að við gætum þolað útflæði á þeim tíma. Vaxtamunur er líka mjög hagstæður okkur á meðan á árunum 2011, 2012 og 2013 var almenn vantrú, víðtækari vantrú skulum við orða það, 2010, 2011 og 2012 sérstaklega, jafnt innan lands sem erlendis á viðsnúningsgetu okkar í hagkerfinu. Stjórnarandstaðan flutti mál eftir mál um það að hér væri allt í kalda koli, að gerbreyta þyrfti efnahagsstefnunni og væntingavísitala í atvinnulífinu var lág og menn voru svartsýnir gagnvart framtíðarhorfum. Við þær aðstæður er mjög hættulegt að losa gjaldeyrishöft án fullnægjandi viðbúnaðar því að hættan er sú að það verði ekki útlendingar sem fari með peningana út heldur innlendir aðilar sem einfaldlega hafa ekki trú á stöðu mála heima fyrir.
Þetta frumvarp og rannsóknarheimildir Seðlabankans sem í því eru fólgnar og eiga að greiða fyrir beitingu þjóðhagsvarúðartækja í framhaldinu o.s.frv., sýna í hnotskurn veikleikann sem við búum við með hina íslensku krónu. Við erum í fullkominni óvissu um framtíðarþróunina. Ef það er eitthvað sem er orðið alveg ljóst núna frá hruni er það að íslenska krónan virkar bara ef menn eru tilbúnir til þess að setja á höft þegar útflæðisþrýstingur eykst. Ég held að það sé lærdómurinn af þessu kerfi öllu saman. En í þeirri stefnumörkun felst líka mikið tjón. Það þýðir að við getum ekki búist við því að fyrirtæki sem ætla að vera í alþjóðlegri starfsemi kjósi að hafa höfuðstöðvar hér á landi vegna þess að engin fyrirtæki sem vilja láta taka sig alvarlega í alþjóðlegum viðskiptum hætta á það að vera í landi þar sem hægt er að setja höft. Það er fórnarkostnaður fyrir okkur. Við sjáum það svo vel í nýjum störfum í þekkingariðnaði hversu mjög dregið hefur úr jákvæðri þróun þar frá hruni. Fyrir hrun og frá gildistöku EES-samningsins höfðum við hér stór alþjóðleg fyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi, ég nefni bara Marel, Össur og Actavis sem skiptu okkur miklu máli. Við höfum enn þá einstaka bútastarfsemi sumra þessara félaga hér, en Actavis er að loka í Hafnarfirði og það eru engin ný svona stór fyrirtæki að verða til á Íslandi í dag. Starfsstöðvar nýrra þekkingarfyrirtækja eru miklu minni og fámennari. Það eru engir mörg hundruð manna vinnustaðir. Það er sorglegt og mikið áhyggjuefni. Það er bein afleiðing þess að við búum við gjaldmiðil sem er haftagjaldmiðill og það vill enginn hætta á það að vera með höfuðstöðvar í haftagjaldmiðilslandi.
Hinn fórnarkostnaðurinn sem fylgir því að vera tilbúinn að setja á höft er sú staðreynd að þá búum við til umgjörð sem auðvelt er að misnota til ofstjórnunar. Við búum til eitthvað sem heitir þjóðhagsvarúðartæki, en beiting þeirra skiptir miklu máli. Hvenær er þeim beitt? Klukkan hvað er þeim beitt? Fær réttur viðskiptamaður að sleppa í gegn með sína yfirfærslu fimm mínútur í fjögur ef hindranirnar eru settar á klukkan fjögur? Fær hann símhringingu um að það sé yfirvofandi að setja á þessar hindranir eða aðrar, alveg eins og var í gamla daga þegar vildarvinir núverandi stjórnarflokka fengu að vita um gengisfellingar á undan öllum öðrum? Þeir gátu fengið að afgreiða vörur á gamla genginu en venjulegt fólk þurfti hins vegar að sæta gengisfellingunni. Það er engin tilviljun að á sama tíma og þessi ríkisstjórn hættir við aðildarumsókn að Evrópusambandinu og lokar fyrir umræðu um nýjan gjaldmiðil og nýtt gjaldmiðilsumhverfi þá höfum við séð ítrekaðar tilraunir hennar á kjörtímabilinu til þess að breyta yfirstjórn Seðlabankans og gera hana pólitískari. Það er vegna þess að ef við ætlum að búa við íslenska krónu þar sem forsenda gjaldmiðilsins er að menn séu alltaf tilbúnir að setja á höft og þar sem ýmsar hindranir eru við frjálsum viðskiptum og hægt að koma þeim á með stjórnvaldsákvörðun þá gerum við stöðu seðlabankastjóra landsins pólitískt eftirsóknarverðasta starfið í landinu. Við aukum á hættuna á pólitískum afskiptum af Seðlabankanum og setjum okkur þar af leiðandi í þá stöðu að við séum ekki frjálst markaðshagkerfi heldur hagkerfi þar sem pólitísk ítök eru hluti af stjórnkerfi efnahagsmála. Þannig að tjónið af krónunni er gríðarlegt. Við vitum það alveg að ef við ætluðum að afnema höft til fulls þá þyrftum við að hafa skuldlausan ríkissjóð, þyrftum að hafa gríðarlega stóran óskuldsettan gjaldeyrisvaraforða og við þyrftum að hafa viðvarandi mun hærri vexti en í öðrum löndum. Allt er þetta tjón fyrir íslenskt atvinnulíf. Við reynum að gera þetta að verulegu leyti og við munum þurfa að gera þetta að verulegu leyti, en svo búum við líka til þjóðhagsvarúðartæki. Við erum nú þegar búin að samþykkja í vor innflæðishindranir þar sem hægt er að setja bindisskyldu á þá sem koma með erlent fé inn í landið í vaxtamunarviðskiptum og ýmiss konar útflæðishindranir eru auðvitað í pípunum og eins og ég segi, það verður þá þannig að íslenska krónan mun koma í veg fyrir að við verðum alþjóðlega gjaldgengt hagkerfi, við verðum svona hálfhaftaland til langframa. Þess vegna er það að rætast sem ég hef margoft sagt frá hruni að það sé óhugsandi að íslensk króna verði aftur án hafta. Hún verður alltaf með einhvers konar höftum. Menn munu kalla þau einhverjum öðrum nöfnum en við skulum ekki blekkja okkur með því að það að viðhalda hótuninni um að setja höft hvenær sem er og að hafa í gildi ýmiss konar þjóðhagsvarúðartæki sem bjóða upp á ýmiss konar einstaklingsbundnar eða sértækar ákvarðanir um hver má og hver má ekki bjóði ekki heim pólitískri misnotkun á Seðlabankanum og hagkerfi þar sem tekið verður á sambærilegum málum með ósambærilegum hætti.
Ég vil að síðustu, virðulegi forseti, lýsa gleði minni yfir því að hér skuli í þingsal sitja nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar. Athyglisvert að enginn úr stjórnarmeirihlutanum hafi tök á því, ég skil það nú reyndar að þingmenn Framsóknarflokksins séu uppteknir við úthringingar og önnur brýnni verkefni, en það hlýtur auðvitað að vera okkur sem þjóðþingi umhugsunarefni af hverju í ósköpunum þingið og þingforustan lætur bjóða sér það að hér sé verið að halda umræðu í gangi sem enginn vilji er af hálfu stjórnarliða til að taka þátt í. Ég fagna nú komu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í salinn, en það væri eðlilegast að fresta þingfundum og halda þeim áfram þegar einhverjar horfur eru á því að stjórnarmeirihlutinn sé jafnt andlega sem líkamlega viðstaddur í þingsal.