145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[16:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er viss um að við höfum eitthvað lært, en ég er líka viss um að við höfum ekki lært nóg. Það sá maður nú á umfjölluninni um þingmálið sem við afgreiddum í síðustu viku um alþjóðlega fjármálaeftirlitið vegna þess að þar skorti mikið á greiningu á þeim undirliggjandi hættum sem ávallt eru fyrir íslenskt efnahagslíf á opnum markaði.

Ég mundi vilja svara hv. þingmanni með þeim hætti að segja að mér fyndist við ekki hafa lært til fulls af þessu ef við teljum að lausnin geti verið gjaldmiðill sem ekki er almennilega gjaldgengur og getur ekki verið starfrækslugjaldmiðill fyrir alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki. Þá held ég að gjaldmiðilsmálið og vandi okkar í peningamálum verði viðvarandi. Hann er ekki ofarlega á baugi núna vegna þess að verðbólga er lág vegna hagstæðari ytri aðstæðna, en við vitum það alveg eins og að nótt fylgir degi að það endist ekki endalaust. Þegar verðbólgan fer af stað eða gengið fer að falla, nema hvort tveggja sé, vitum við alveg hvað gerist í íslensku hagkerfi. Þá mun fólk horfa á nýjan leik til þess að fá alvöru gjaldmiðil sem er gjaldgengur og ekki eins sveiflukenndur og veikburða og krónan.

Ég held líka að okkur skorti skilning, eins og í þessu fjármálaeftirlitsmáli, á þeim hagrænu staðreyndum sem við stöndum frammi fyrir. Það mun alltaf verða innflæði fjár til Íslands. Það mun alltaf verða útflæði fjár frá Íslandi. En það er mjög hættulegt að búa til kommisarakerfi eins og verið er að gera með þjóðhagsvarúðartækjunum sem skapa möguleika á því að ef óvandaðir menn komast í forustu (Forseti hringir.) Seðlabankans, eins og ríkisstjórnin hefur um margt stefnt að því að gera á þessu kjörtímabili, séu þar tæki til þess að mismuna mönnum, gera vildarvinum (Forseti hringir.) greiða og hegna öðrum.