145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[16:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Niðurlagið í svari hv. þingmanns minnti mig á það sem ég taldi mig hafa að mestu klárað að ræða hérna, þ.e. upplýsingasöfnunina sem á sér stað hjá Seðlabankanum, sem við höfum farið yfir. Hún er nauðsynleg og allt það, en samt sem áður hefur hún þessi vandkvæði í för með sér. Þetta eru auðvitað dýrmætar upplýsingar og fyrir fleiri en Seðlabankann og fyrir fleiri en Íslendinga. Það er jú ákveðinn vandi.

Ég er sammála hv. þingmanni. Ég held að við höfum lært eitthvað, merkilegt nokk, en ekki nóg. Ég óttast sérstaklega að núna séum við fyrst og fremst að einblína á lausnir eða umgjörð hagkerfis sem geti tekist á við þetta tiltekna vandamál sem var bankahrunið 2008. Ef ég velti því upp hvort við séum t.d. reiðubúin fyrir skyndilegan viðsnúning í ferðamannastraumi, sem dæmi, sem gæti átt sér stað af milljón mismunandi ástæðum, það þarf ekkert að telja þær upp, það er ýmislegt sem getur valdið því, þá sé ég ekki fram á það að við værum jafn vel í stakk búin til að bregðast við því. Þá óttast ég líka ef eitthvað slíkt mundi gerast, og vonandi gerist það ekki, alla vega ekki snögglega, mundum við þurfa enn þá fleiri tæki á borð við þau sem hér eru sett inn. Hérna eru sett inn tæki til þess að safna saman upplýsingum hjá Seðlabankanum, mjög víðtækar heimildir, enn og aftur, og munu halda áfram að vera mikilvægar. Og ekki síst vegna þess að við erum með þennan gjaldmiðil held ég að við verðum alltaf einhvern veginn föst í viðbragðsstöðu gagnvart gjaldmiðilsvandamálinu, sem eru auðvitað hinar miklu gengissveiflur. En sömuleiðis hefur verið andvaraleysi hjá íslenskum yfirvöldum og, ég ætla bara að segja það, íslenskum almenningi líka, gagnvart hugsanlegum skakkaföllum í innviðum hagkerfis, t.d. bankakerfisins en ekki síður ferðamannaiðnaðarins.

Ég velti fyrir mér: Ef við ætlum að vera með þessa krónu áfram, sem lítur allt út fyrir að verði tilfellið, hvernig getum við best búið að því án þess (Forseti hringir.) að vera alltaf í einhverjum höftum?