gjaldeyrismál.
Virðulegi forseti. Vandinn við íslenskt hagkerfi er að það er mikið Mikka mús-hagkerfi. Þetta eru litlar stærðir og það er á færi eins þokkalega efnaðs manns að standa fyrir þannig tilflutningum á fjármagni milli landa að það getur haft veruleg áhrif á lykilstærðir í hagkerfinu innan sólarhringsins. Það er alveg óbærileg staða fyrir þjóðina að við séum þannig eins og leiksoppar auðmanna, að hægt sé að stilla af lykilstærðir í hagkerfinu eftir geðþótta örfárra einstaklinga.
Það verður vandamál meðan við búum við íslenska krónu, sérstaklega eftir hrunið vegna þess að íslenska krónan er ekki vinsæl úti um heim og það er erfitt að sannfæra menn um að fjárfesta í henni. Auðvitað erum við alltaf að bíta í skottið á okkur. Nú er byrjað að fjárfesta eða markaðssetja íslensk skuldabréf í útlöndum og þar með þurfa menn að fjárfesta í íslenskum krónum. Það er gott fyrir okkur að sumu leyti, gjaldeyrismarkaðurinn verður dýpri, en það er líka slæmt að því leyti, eins og við upplifðum í hruninu, að þegar öllum verður mál á sama tíma sunkar krónan og við sitjum eftir með mikinn vanda.
Ég held að skásta leiðin til að lifa við krónuna séu einhvers konar höft og hömlur og þjóðhagsvarúðartæki eins og við erum að þróa, en eins og ég sagði áðan. Þau skapa verulega hættu á misnotkun vegna þess að lykilstærðirnar sem leiða af upplýsingunum sem hv. þingmaður var að tala um áðan, þ.e. lykilstærðirnar og ákvarðanirnar um hver má fara út á hvaða tíma, eru verulega verðmætar ákvarðanir. Þeir sem fá að fara út geta hagnast gríðarlega umfram þá sem fá að fara út klukkutíma seinna eða fá kannski ekki að fara út. Það skapar hættur á pólitískum ítökum í yfirstjórn Seðlabankans. Það er stóra hættan sem ég sé að við stöndum frammi fyrir núna.