145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um opinber innkaup. Það er gott mál. Það er að sönnu byggt á tilskipunum sem við þurfum að innleiða vegna EES-samningsins. Á sama hátt er þarna ýmislegt sem tengist okkur beint og við höfum sjálf verið að vinna í. Við þekkjum málið í stærra samhengi. Við höfum lagt mikla áherslu á það á þessu kjörtímabili, og þá sérstaklega meiri hluti fjárlaganefndar, að ýta eftir því að útboð sé nýtt við innkaup á vörum og þjónustu hjá hinu opinbera eða hjá ríkinu. Ég held að það sé óhætt að segja að það hafi gefið góða raun. Það er bæði réttlátt og skynsamlegt og besta leiðin til að tryggja að við fáum bestu vöruna, og bestu þjónustuna, á sem hagstæðustu verði og ýtir sömuleiðis undir heilbrigða og eðlilega samkeppni.

Það eru nokkrir hlutir sem tengjast þessu máli. Í umsögnum gerði eitt sveitarfélag athugasemdir við það að viðmiðunarfjárhæðir sem ná til ríkisins eigi líka að ná til sveitarfélaganna, en ég verð að segja að mér fannst það ekki vera nægjanlega sterk rök enda ættu sérstaklega stærstu sveitarfélögin sem þetta á við um, eða það stærsta, að hafa burði til þess að geta boðið út eins og hjá ríkinu. Sérstaklega í ljósi þess að það sem er viðkvæmt í þessu, sú þjónusta — hægt er að fá undanþágu frá því.

Síðan er annað, virðulegi forseti. Það snýr að því að í gömlu lögunum var sérstakt ákvæði um samkeppnismat. Þá voru menn að vísa til þess að samkeppnisyfirvöld þyrftu að gera úttekt á stöðu samkeppnismála á viðkomandi markaði þannig að þegar farið yrði í útboð í samvinnu við opinberar stofnanir, sem er sjálfsagt og eðlilegt og æskilegt, með öðrum aðilum á Evrópska efnahagssvæðinu til að fá hagstæðari tilboð þá þyrfti að vera tryggt að það mundi ekki valda skaða á innlendum markaði í kjölfarið. Þetta var sett inn fyrir nokkrum árum. Það er hins vegar vont að sá aðili sem kannski mundi nýta sér þetta best lét aldrei á þetta reyna, þá er ég að vísa til Landspítalans, og þar af leiðandi fengum við ekki reynslu af því hvernig þetta gekk. En svo að það sé sagt þá voru umsagnaraðilar mjög ósammála um ágæti þessa samkeppnismats. Sumir aðilar töldu þetta vera svo erfitt og óyfirstíganlegt að ekki væri hægt að taka þátt í sameiginlegum útboðum, á meðan aðilar eins og Ríkiskaup og Samkeppniseftirlitið töldu að þetta væri tiltölulega lítið mál og einfalt að framkvæma þetta.

Vísað var til reynslu ríkislögreglustjóra, að þetta hefði gengið vel hjá þeirri stofnun við opinber útboð. Við eftirgrennslan kom í ljós að þeir höfðu farið í sameiginlegt útboð á byssukúlum á Evrópska efnahagssvæðinu áður en samkeppnismatið kom inn í lögin. Það gekk mjög vel, en hins vegar tók það eitt og hálft ár fyrir þá að fá svör um samkeppnismatið þegar þeir reyndu að fara þá leið eftir að það kom inn í lögin. Það segir sig sjálft að það er eitthvað sem getur ekki gengið upp fyrir viðkomandi stofnanir. Landspítalinn sem kallaði hvað mest eftir þessu lét aldrei á þetta reyna, því miður, það hefði verið gott að hafa þá reynslu.

Niðurstaðan í hv. fjárlaganefnd var sú að taka út ákvæðið eins og það er í dag. Þess í stað skal tilkynna Samkeppniseftirlitinu um fyrirhuguð innkaup ásamt rökstuðningi fyrir beitingu heimildarinnar. Samkeppniseftirlitið skal veita álit sitt á samkeppnismatinu og taka þar með afstöðu til þess hvort útboðið sé til þess fallið að raska samkeppni á innlendum markaði. Afstaða Samkeppniseftirlitsins kemur þó ekki til með að stöðva eða tefja útboðsferlið og þannig kemur álit þess ekki í veg fyrir að innkaupin geti farið fram. Á mannamáli þýðir þetta það að viðkomandi stofnun sendir tilkynningu til Samkeppniseftirlitsins en heldur áfram með útboðið og Samkeppniseftirlitinu er skylt að koma með álit sitt á því hvort þetta hafi áhrif á viðkomandi markað. Það er svolítið stórt mál hvort viðkomandi fyrirtæki, sem starfar í þessum geira, sé einungis að vinna á innlendum markaði eða hvort markaðurinn sé Evrópska efnahagssvæðið.

Lyf hafa verið mest í umræðunni, en þetta á auðvitað við um mjög margt annað. Forsvarsmenn Landspítalans hafa til dæmis haldið því fram að ef þeir taki þátt í sameiginlegum útboðum með öðrum spítölum á Norðurlöndum geti þeir fengið mun hagstæðara verð. Er þetta tilkomið vegna þess að með EES-samningnum urðum við aðilar að haftaverslun ESB um lyfjamál. Nú kynni einhver að spyrja: Hvað er það? Þetta er myndin af því sem Evrópusambandið er hvað harðast gagnrýnt fyrir af aðilum innan Evrópusambandsins og aðildarlöndunum, en gagnrýnin beinist að stærstum hluta að því að þar er um að ræða embættismannaveldi sem enginn getur haft nein áhrif á, sem hefur ekki ábyrgð gagnvart neinum. Þá er ég að vísa til framkvæmdastjórnarinnar þar sem menn eru ráðnir inn, þeir eru ekki kosnir inn, og skiptir engu máli hvernig Evrópukosningar fara eða kosningar í viðkomandi löndum, þeir sitja þar og eru með gríðarleg völd. Þeir aðilar sem hafa mestan aðgang að þessum aðilum eru stórir aðilar, stórar lobbýgrúppur eins og bankarnir og stóru lyfjafyrirtækin.

Hugmyndin með Evrópska efnahagssvæðinu er sú að þetta sé eitt markaðssvæði, þannig að ef viðkomandi aðili flytur eitthvað inn á Evrópska efnahagssvæðið, sama hvað er, segjum í Bretlandi, Þýskalandi eða hvar það er, þá á varan að geta flotið um allt svæðið. Þetta á hins vegar ekki við um lyf. Þar þurfa menn að fara í gegnum sama prósessinn, sama fyrirkomulagið, til að fá leyfi fyrir lyfið í hverju landi fyrir sig. Þetta er augljóslega gert til þess að skipta Evrópumarkaðnum upp eftir kaupgetu almennings þannig að þessir stóru lyfjaframleiðendur, sem eru nú ekkert mjög margir í heiminum, geti stýrt því á hvaða verði þeir selja viðkomandi lyf á viðkomandi markaði.

Það segir sig sjálft, virðulegi forseti, að það er svolítið skrýtið þegar á svæðum eins og við Miðjarðarhafið, í löndunum þar, er vara seld á miklu lægra verði en til dæmis á Íslandi. Þeir aðilar sem fara sérstaklega illa út úr þessu eru litlu markaðirnir eins og Ísland. Þó er það þannig að innan Evrópusambandsins svindla menn svolítið á þessu eins og þeir gera oft. Lúxemborg fer til dæmis þá leið að nýta sér belgísku lyfjastofnunina. Malta fór, alla vega síðast þegar ég kannaði, þá leið að taka ekki mark á þessu heldur taka þeir bara allt inn sem kemur frá Bretlandi. En við Íslendingar höfum orðið fyrir barðinu á þessu sem kemur meðal annars fram í því að hér eru miklu færri lyf á markaði með miklu færri markaðsleyfi og hefur það reynst okkur erfitt þó svo að við höfum náð miklum árangri í því að lækka lyfjaverð á undanförnum árum, og erum vonandi að ná enn þá betri árangri því að lyf eru mjög mikilvæg og það er mjög mikilvægt að við séum með eins ný lyf og mögulegt er, eins góð lyf og mögulegt er, vegna þess að lyf eiga ekki bara að bjarga lífi fólks, heldur gera að verkum að fólk sem annars væri óvinnufært geti tekið þátt í þjóðfélaginu. Það eru sífellt fleiri sem geta tekið þátt í þjóðfélaginu út af þróuninni á lyfjamarkaðnum.

Ég vísa hér til þessa, virðulegi forseti, af því ég þekki þetta mál nokkuð vel. Sem heilbrigðisráðherra vann ég á sínum tíma mikið í þessum málum, fundaði meðal annars með framkvæmdastjórum Evrópusambandsins út af þessu. Það viðurkenna allir þennan vanda, en það hefur hins vegar lítið verið gert í að leysa hann. Við þurfum að hafa þetta í huga þegar við gerum áætlanir hvað þessa hluti varðar.

Niðurstaða hv. fjárlaganefndar er sú að við erum ekki að stöðva útboð, sama hvaða fyrirtæki er um að ræða. Þetta á að sjálfsögðu ekki bara við um Landspítalann, þetta á við um öll opinber fyrirtæki, þau geta farið í útboð en þau þurfa hins vegar að tilkynna það til Samkeppniseftirlitsins með þessu samkeppnismati. Samkeppniseftirlitið verður að taka afstöðu til þess hvort um sé að ræða markað sem er þá í raun evrópskur, þá þarf ekkert að gera það neitt meira, þá vita allir umboðsaðilar fyrir viðkomandi vöru hér á landi og sömuleiðis vita þeir aðilar sem kaupa inn að þeir geta gengið að þessu með þessum hætti. Ég held að þetta sé lausn sem flestir ættu að geta sætt sig við.

Við bætum líka hér inn, virðulegi forseti, málskotsrétti fyrir félög eða samtök fyrirtækja til kærunefndar útboðsmála. Það er auðvitað mjög viðkvæmt. Á mörgum sviðum eru viðkomandi opinberar stofnanir, stærstu og stundum jafnvel einu kaupendur að vörum hjá litlum aðilum. Ef einhver telur á sér brotið þá er það svolítið stór ákvörðun að kæra þann eina aðila eða alla vega langstærsta viðskiptavininn. Þess vegna fannst okkur það málefnaleg rök að samtök viðkomandi fyrirtækja gætu skotið málum til kærunefndar útboðsmála.

Það hefur síðan komið athugasemd varðandi eina grein sem snýr ekki að þessum málum. Það er athugasemd frá Samtökum iðnaðarins, sem telja að við þurfum að fara betur yfir ákveðinn þátt mála sem snýr að uppgjöri við undirverktaka. Ég legg þess vegna til, virðulegi forseti, að við förum með málið í nefnd á milli umræðna. Að öðru leyti leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir þetta skrifa hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Brynhildur Pétursdóttir, Haraldur Benediktsson, Oddný Harðardóttir, Páll Jóhann Pálsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Valgerður Gunnarsdóttir. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar, hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Oddný G. Harðardóttir, skrifa undir með fyrirvara um viðmiðunarfjárhæðir vegna innkaupa sveitarfélaga.