145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta breytir engu. Þetta er regluverk Evrópusambandsins. Það er augljóst af hverju það er gert með þessum hætti. Það eru engin málefnaleg rök fyrir því. Þú getur ekki án samþykkis viðkomandi lands nýtt þau markaðsleyfi. Ég gerði það hins vegar, náði samningum við Svíþjóð á sínum tíma í minni tíð sem heilbrigðisráðherra, að öll þau lyf sem voru skráð með markaðsleyfi þar færu sjálfkrafa til Íslands nema viðkomandi fyrirtæki stoppaði það sjálft. Nokkur gerðu það sem mér finnst alveg stórmerkilegt. En hins vegar er það þannig … (VBj: Sérhagsmunir.) Já, algjörlega, þetta eru allt sérhagsmunir. Það er auðvelt að koma sérhagsmunum fyrir ef þú ert stór í Brussel. Ég hef talað við marga Evrópuþingmenn sem hafa sagt að það komi á óvart þegar stóru bankarnir og stóru fyrirtækin eru mjög fylgjandi öllu þessu reglugerðafargani. Af hverju eru þau fylgjandi því? Vegna þess að þegar þú ert risastór þá er ekkert mál fyrir þig að hafa 10, 20, 30, 40, 100 manna deild sem sinnir reglugerðafarganinu, en litlu og meðalstóru fyrirtækin geta ekki keppt í því vegna þess að það eru svo mikil umsvif að fara í gegnum einhverjar reglur sem oft á tíðum eru mjög sérkennilegar.

Það var síðasta ríkisstjórn sem hætti því samstarfi sem ég kom á. Síðast þegar ég kom að þessu voru nokkrir tugir lyfja sem fóru í gegn með þessum hætti sem var auðvitað mjög æskilegt, en ég veit ekki af hverju síðasta ríkisstjórn hætti því samstarfi. Það er hins vegar ekki hægt að gera þetta öðruvísi en að vera í samstarfi við viðkomandi lyfjastofnun í viðkomandi landi af því að Evrópureglurnar eru þannig. (Gripið fram í.) Þær eru bara þannig. Reglurnar í Brussel eru svona vegna þess að það er verið að gæta hagsmuna stóru lyfjafyrirtækjanna þannig að hægt sé að verðleggja lyfin hærra verði í löndum þar sem kaupmáttur er hár en þar sem er lægri kaupmáttur. Þetta er tilkomið vegna þess að stóru lobbýgrúppurnar, stóru fyrirtækin, hafa svo góðan aðgang að framkvæmdastjórninni í Brussel á meðan litlu aðilarnir hafa ekki sama vægi, hvað þá þessir vesalings Evrópuþingmenn.