145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[17:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og sérstaklega fyrir að vekja athygli á stöðu sveitarfélaganna í þessu efni. Það hefur auðvitað loðað við nokkuð lengi að kröfurnar á sveitarfélögin á ESA-svæðinu séu kannski í þessum efnum miklu ríkari en kröfurnar á sveitarfélögin sem eru Evrópusambandsmegin á svæðinu vegna þess að eftirlitsstofnanirnar séu miklu öflugri í þessum litlu ríkjum á EES-svæðinu en er í hinu stóra Evrópusambandi. Það takmarki nokkuð valkosti og svigrúm sveitarfélaganna þegar verið sé að ráðast í ýmis verkefni. Ég vil því spyrja þingmanninn út í möguleika sveitarfélaga til að mynda á að beina viðskiptum á sitt svæði eða að hafa uppi önnur slík sjónarmið sem kunna náttúrlega að brjóta gegn jafnræði en geta engu að síður verið sterk málefnaleg sjónarmið fyrir, að sveitarstjórn á einhverju tilteknu svæði telji mikilvægt að halda tiltekinni atvinnustarfsemi eða sérþekkingu á því svæði áfram með því að eiga viðskipti við það jafnvel þótt þar byðust ekki hagstæðustu kjörin. Mér leikur forvitni á að vita hvaða svigrúm sveitarfélögin hafa að þessum breytingum gerðum, t.d. í slíkum málum.