145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[17:38]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Forseti. Ég skildi það þannig að það væru undantekningartilfelli þar sem kæruferli mundi tefja framkvæmdir. Það verður þá bara að koma í ljós ef það er þannig. Mér fannst eins og þetta snerist meira um það hvort menn færu í gríð og erg að láta reyna á þetta kæruferli og fá kannski einhver fordæmismál út úr nefndinni. Það kom til álita eða var talað um að viðmiðunarfjárhæðin yrði hærri, þ.e. viðmiðunarfjárhæðin sem þyrfti að vera til þess að þetta væri kæranlegt. Ef það kemur einhver brjálæðislega góð tillaga á milli umræðna horfir nefndin auðvitað til þess. Við fengum góða umsögn frá Reykjavíkurborg og frá sambandinu. Við kölluðum eftir meiri gögnum því að við vildum virkilega skoða þetta. En við fengum í raun ekki útfærslu sem við vorum sammála um að væri góð. Þetta er svona og eins og ég segi er ég með fyrirvara sérstaklega út af þessari grein því að það vakna margar spurninga. En ég skil líka að á einhverjum tímapunkti þurfa lög að fara í gegn. Við getum ekki setið hérna í fleiri vikur í viðbót að baksa í þessu eina máli þegar það eru ansi mörg önnur mál sem bíða. Það er það sem maður hefur áhyggjur af á þessari stundu, hversu mörg stór mál eru í þinginu. Þetta er kannski gott dæmi um hvað það getur þurft mikinn tíma í einstakar lagagreinar.

Ég hef ekki öðru við þetta að bæta en að það verður í raun að koma í ljós hvort þetta muni ekki bara reynast vel.