145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður gleðst yfir auknu framlagi sem kemur fram í þessu nefndaráliti. Ég tek undir með honum. Ég er afar glaður að standa hér og benda á að við séum að bæta í áætlunina um 11,5 milljörðum kr., sem er gríðarlega mikið framlag. Ég hef reyndar sjálfur talað fyrir því að við þurfum að auka hlutfallið af vergri þjóðarframleiðslu. Það var 1,1% frá hruni og í tíð síðustu ríkisstjórnar, en okkur hefur tekist að hækka það í 1,3 sem er jákvætt. Við þurfum að hækka það enn frekar eins og ég kom inn á áðan.

Það er rétt sem þingmaðurinn kom inn á að með batnandi þjóðarhag þurfum við að leggja meira fjármagn í samgöngumálin. Ég hef talað ítarlega fyrir því, en ég hef þó sýnt því skilning að áherslurnar hafa verið á aukið framlag til heilbrigðismála og í marga aðra mikilvæga málaflokka. Ég hef bent á það um leið að það að láta samgöngumálin bíða, eins og raun ber vitni frá hruni, getur orðið þjóðarbúinu dýrara. Í öllu þessu þurfum við að sjálfsögðu að gæta að ábyrgð. Við þurfum að gæta að því að áætlun sé í samræmi við ríkisfjármálaáætlunina.

Ég tek undir með hv. þingmanni, eins og stendur mjög skýrum orðum í nefndaráliti meiri hlutans, að við teljum að gjaldskrár markaðra tekna ættu að fylgja verðlagi líkt og flestar aðrar opinberar gjaldskrár. Við teljum það ómögulega bókhaldsfærslu að þetta sé fært sem skuld hjá Vegagerð (Forseti hringir.) ríkisins og við höfum reyndar bent á það að vinda þurfi ofan af henni og afskrifa hana.