fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.
Herra forseti. Ég átti þess kost að sitja einn fund í samgöngunefnd í vor. Þá tók ég þetta mál upp, eins og hv. þingmaður kannast við, og ræddi. Ég man að ég sagði og ætla að endurtaka það: Mér finnst ómögulegt að afgreiða samgönguáætlun hér þegar búið er að dreifa langtímaáætlun, sem er sömuleiðis mikil vonbrigði, og að ekki sé kominn botn í þetta mál. Það þarf að gera það hvort sem er vegna laga um opinber fjármál og væntanlega breyttrar framsetningar á þessu í framtíðinni, jafnvel afnámi allra eða mest allra markaðra tekna. Ég hef litið svo á að það hljóti að vera sjálfsagður hlutur að slegið verði striki yfir reikningslega skuld þessarar æfingar, sem er ekkert annað en æfing, að blása út einhverjar rosalega skuld vegasjóðs við ríkissjóð vegna þess að menn hafa tekið pólitískar ákvarðanir um að leggja fé beint úr ríkissjóði í viðbót við markaðar tekjur í framkvæmdir á undanförnu árum. Ef engar markaðar tekjur verða eftir með hverju á þá Vegagerðin að borga skuldina? Af hverju eru stjórnarflokkarnir ekki komnir með niðurstöðu í þetta mál? Það er stórfurðulegt.
Varðandi flugvallarmálin þá er ágætt að sjá að menn vilja sýna þarna lit í breytingartillögunum, en það er meira en ár frá því að nefnd skilaði beinum tillögum um aðgerðir til að lækka farmiðaverð. Hvernig eru þessar 300 milljónir hugsaðar? Eiga þær að fara inn í þjónustusamninginn? Hefur verið rætt við fjármálaráðuneytið um að gera það sem er í sjálfu sér einfaldast og það er að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskattinn af eldsneyti í innanlandsflugi? Það er mjög markviss aðgerð til þess að draga beint úr kostnaðinum við flugið og gæti skilað um helmingi af þeirri 15 til 18% lækkun farmiða sem við lögðum til í nefndinni. Það telst ekki neitt rosalega rösklegt verklag að það hefur ekkert frést af þessum tillögum, þessari skýrslu, í meira en ár fyrr en núna að þarna glittir í einar 300 milljónir.