145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

breyting á almannatryggingalöggjöfinni.

[10:35]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Við höfum verið að fara yfir þær athugasemdir sem komið hafa fram við frumvarpið, ekki hvað síst það sem hv. þingmaður nefndi varðandi atvinnutekjurnar.

Með því frumvarpi sem við höfum verið að vinna að og ég mælti fyrir hér í þinginu erum við að bæta mjög samspilið sem verið hefur ein af meginkröfum hagsmunasamtaka eldri borgara og öryrkja, og bæta samspilið við lífeyrissjóðina. Þeir sem eru með lífeyristekjur koma þá mun betur út með þessu frumvarpi.

Hins vegar hafa frítekjumörk atvinnutekna verið mjög há, ekki hvað síst eftir þær breytingar sem við gerðum í upphafi þessa kjörtímabils. Niðurstaðan er því sú að þarna kunni hugsanlega einhverjir að koma verr út miðað við frumvarpið.

Ef mig misminnir ekki held ég að fjármálaráðherra hafi sjálfur sagt það í leiðtogaumræðunum að hann sé tilbúinn að skoða breytingar sem snúa akkúrat að þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður nefndi hér. Ég get staðfest að við höfum verið að reikna út kostnaðinn við að setja inn frítekjumark atvinnutekna og þar af leiðandi að koma til móts við þessar athugasemdir. Ég hef upplýst bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra um þær tölur.