145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

breyting á almannatryggingalöggjöfinni.

[10:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ákaflega mikilvægt að almannatryggingakerfið okkar sé hvetjandi. Að það sé ekki letjandi. Að það skerði ekki fólk jafnharðan og það sýnir einhverja viðleitni til sjálfsbjargar, hvort sem um er að ræða aldraða eða öryrkja. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sé að láta skoða frítekjumark á atvinnutekjur. Það er mikilvægt að fólk sem er að reyna að auka lífsgæði sín með því að vinna í hlutastarfi kannski eftir að það er komið á lífeyri, sé ekki látið gjalda þess. En ég bið hæstv. ráðherra um að upplýsa ekki bara samráðherra sína um hvaða tölur verið er að skoða í þessu sambandi heldur hvaða frítekjumark ráðherra hefur látið skoða og hver kostnaðurinn er við að gera þær breytingar. Ég skil það þannig að það sé vilji til þess í ríkisstjórninni að koma til móts við þær sjálfsögðu kröfur aldraðra að menn verði ekki verr settir eftir þessar lagabreytingar en fyrir heldur þvert á móti betur settir.